Reyndi að ryðjast inn í flugstjórnarklefann

20.05.2017 - 04:25
Mynd með færslu
Flugvélin var á leið til Honolulu á Havaí.  Mynd: Public domain
Bandaríski flugherinn sendi tvær orrustuþotur til móts við farþegaflugvél American Airlines eftir að maður reyndi að brjóta sér leið inn í flugstjórnarklefa vélarinnar. Maðurinn hafði ekki erindi sem erfiði og var yfirbugaður af flugliðum og lögregluþjóni á frívakt. Flugvélin var á leið frá Los Angeles í Kaliforníu til Honolulu á Havaíeyjum og orrustuþoturnar fylgdu henni þangað.

Vélin lenti á Honolulu um klukkan hálftíu í gærkvöldi að íslenskum tíma með 181 farþega um borð og sex í áhöfn. The Guardian greinir frá því að engan hafi sakað í atganginum. Maðurinn, sem sé tyrkneskur, hafi verið handtekinn og leiddur í járnum út úr flugvélinni.

Havaíski fjölmiðillinn HawaiiNewsNow segir frá því að maðurinn hafi brotið gegn öryggisreglum á flugvellinum í Los Angeles en þar hafi verið farið yfir málið og ákveðið að hleypa honum samt í flugið. Ekki kemur fram í hverju brot mannsins fólst og The Guardian tókst ekki að fá þessa frásögn staðfesta.

Mynd með færslu
Stígur Helgason
Fréttastofa RÚV