Renzi leggur allt undir fyrir samkynhneigða

21.02.2016 - 23:30
epa04979150 Italian Prime Minister, Matteo Renzi, speaks to reporters as he leaves an EU Summit in Brussels, Belgium, early 16 October 2015. EU heads of state and government gathered in Brussels to discuss migration.  EPA/LAURENT DUBRULE
Matteo Renzi, forsætisráðherra Ítalíu.  Mynd: EPA
Matteo Renzi, forsætisráðherra Ítalíu, segist tilbúinn að leggja fram vantrausttillögu á þinginu til þess að leysa úr ágreiningi um réttindi samkynhneigðra. Renzi segir þingið á krossgötum og tími sé kominn til að koma málinu í gegnum þingið.

Renzi, sem hingað til hefur haft sig hægan um frumvarpið, segir löggjöf um staðfesta samvist samkynhneigðra og almenn réttindi þeirra jafn mikilvæga baráttu sinni við að koma á umbótum meðal verkamanna og framvindu þingmála.

Ef Renzi lætur verða af vantrausttillögunni og tapar henni í atkvæðagreiðslu á þinginu verður að boða til nýrra kosninga. Hann er nú á þriðja ári sem forsætisráðherra eftir að hafa tekið við formennsku PD flokksins. Flokkurinn stendur nokkuð vel í skoðanakönnunum og gæti það verið ástæðan fyrir því að hann sé tilbúinn til þess að bera tillöguna fram nú.
Stjórnarandstöðuflokkurinn Fimm stjörnu hreyfingin hefur tafið afgreiðslu frumvarpsins á þinginu. Renzi vonast til þess að vera búinn að safna nægum stuðningi við það þegar umræður hefjast að nýju í efri deild þingsins á miðvikudag. 
Helsta ágreiningsefni frumvarpsins er ákvæði um að samkynja maki geti ættleitt barn hins makans. Hópar sem berjast fyrir réttindum samkynhneigðra eru óánægðir með hversu langan tíma tekur að afgreiða frumvarpið, og segja það lítils virði ef ættleiðingarákvæðið verður fellt úr því. Meirihluti Ítala er hlynntur því að samkynhneigðir fái almenn réttindi, en en minnihluti er samþykkur því að þeir öðlist rétt til ættleiðingar.

 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV