Rektorar ráða ráðum sínum

12.05.2017 - 19:01
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
„Við berum öll ábyrgð á því hvernig grafið er undan vísindum,“ segir Pam Fredman forseti Alþjóðasambands háskóla. Rektorar níu evrópskra háskóla og fjölmennur hópur vísindamanna hittust í Veröld húsi Vigdísar í dag til að ræða áskoranir sem vísindasamfélög standa frammi fyrir nú á tímum vantrúar á vísindi.

Þetta er fyrsti stóri viðburðurinn sem  haldinn er í húsi Vigdísar. Háskólarnir níu stofnuðu í lok síðasta árs tengslanet sem nefnist Aurora. Vantrú á vísindum hefur færst í aukana undanfarin ár og hefur fengið byr undir báða vængi eftir að Donald Trump tók við embætti forseta Bandaríkjanna. 
 
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands segir að rektorarnir ræði um hvers vegna staðan er svona. „Hvað háskólarnir geta gert, hvað Aurora getur gert, hvernig getum við brugðist við því þegar grafið er undan vísindalegum staðreyndum?“

Pam Fredman,forseti alþjóðasambands háskóla
 Mynd: RÚV  -  RÚV
Pam Fredman, forseti alþjóðasambands háskóla

Niðurstöður vísindarannsókna hafa ekki alltaf verið aðgengilegar almenningi. Hver er ábyrgð vísindamanna og háskólanna sjálfra?

Pam Fredman, forseti alþjóðasambands háskóla, (International Association of Universities) segir að það sé rétt að vísindamenn beri sjálfir ábyrgð. „Við verðum öll að axla ábyrgð og þessi aðstaða er ekki einhverjum einum um að kenna. Allir verða að sjá að þekking má ekki liggja á milli hluta, við verðum að nota þekkinguna það er mikilvægt. En það er ljóst að við höfum ekki komið þessu vel til skila.“
 
Rannsóknir taki oft langan tíma en stjórnmálamenn verða að taka ákvarðanir fljótt. Taka má flóttamannavandann sem dæmi. Ekki er hægt að bíða í mörg ár eftir niðurstöðum rannsókna á því sviði. „Hér berum við meiri ábyrgð . Við höfum ekki staðið okkur vel í að vinna með stjórnmálum og öðrum samfélagsgeirum.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Margt breytist ef vísindamenn bæta samband sitt og samskipti við almenning. 

„Allir vísindamenn sem vinna við rannsóknir verða að axla ábyrgð gagnvart hverjum hópi, þeir eru ólíkir og bregðast ekki allir eins við.“

Hver á sínu sviði geti vísindamenn unnið með t.d. skólayfirvöldum.  „Ég, sem vísindamaður, á ekki að lifa í eigin heimi og skólayfirvöld í öðrum. Þetta er samvinna sem við verðum að þróa og það má ekki bíða til morguns, það verður að gerast í dag.“

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV