Rektor Karolinska segir af sér

13.02.2016 - 01:57
Mynd með færslu
 Mynd: svt
Anders Hamsten, rektor Karolinska háskólans, hefur sagt af sér vegna plastbarka-ígræðsluhneykslisins, sem skekið hefur sænskt vísindasamfélag undanfarna mánuði. Í grein sem Hamsten skrifar í sænska blaðið Dagens Nyheter segist hann meðvitaður um að trúverðugleiki hans sem rektors hafi beðið hnekki, jafnt hjá almenningi sem vísindasamfélaginu, og einnig hjá hluta starfsfólks og nemenda háskólans.

Hamsten segist í greininni gera sér ljóst að það geti reynst honum afar erfitt að gegna stöðu rektors í öflugasta háskóla Svíþjóðar af þeim krafti og trúverðugleika sem staðan krefjist. Því hafi hann ákveðið að segja stöðu sinni lausri. Uppsögn Hamstens kemur í kjölfar mikillar gagnrýni á yfirstjórn háskólans í tengslum við umdeildar barkaígræðslur ítalska skurðlæknisins Paolos Macchiarinis á Karólínska sjúkrahúsinu, og ekki síður á viðbrögð stjórnarinnar við þeirri gagnrýni. 

Háværar kröfur hafa verið uppi um að Hamsten segði af sér vegna málsins, og þær hafa orðið æ háværari eftir því sem meira hefur komið ljós um vafasaman bakgrunn og aðferðir Macchiarinis. Upp á síðkastið hefur hver afhjúpunin rekið aðra, um rangar upplýsingar í ferilskrá Macchiarinis, gallaðar og jafnvel falsaðar rannsóknarniðurstöður og fleira. 

Hamsten segir barka-ígræðsluhneykslið hafa skaðað ímynd Karólínska háskólans og sjúkrahússins og viðurkennir afdráttarlaust sína ábyrgð því og þeim mistökum sem stjórn háskólans hefur gert í tengslum við það, frá upphafi til dagsins í dag.

Samkvæmt grein rektors eru enn að berast nýjar upplýsingar um málið. Þannig hafi síðast á miðvikudag borist gögn sem gefi allt aðra mynd af líðan og bataferli fyrsta plastbarkaþegans, Erítreumannsins Andemariams Beyene, eftir aðgerðina. Beyene lá þá á sjúkrahúsi hér á Íslandi, þar sem hann var búsettur, en íslenskur læknir hans tók þátt í aðgerðinni á honum.

Myndin sem þessi gögn gefa séu mjög á skjön við það sem Macchiarini hafi haldið fram í skrifum sínum, sem ásamt öðru hafi legið til grundvallar við rannsókn háskólans á ásökunum um óvönduð vinnubrögð hans, að sögn Hamstens.  

Hann segir ennfremur að í ljósi þessara nýju upplýsinga allra hafi það að öllum líkindum verið röng ákvörðun af hans hálfu, að rannsaka þær ásakanir ekki frekar en gert var á sínum tíma. Telur hann flest benda til þess nú, að Macchiarini hafi viðhaft óvönduð vinnubrögð í rannsóknum sínum og aðgerðum, sem á góðri sænsku kallist einfaldlega svindl.

Hamsten segist sjá það nú, að hann hafi gert sér nokkurn veginn alranga mynd af Paolo Macchiarini og að Karolinska háskólinn hefði átt að slíta samstarfinu við hann miklu fyrr en raunin var. Að öllum líkindum hafi það verið grundvallarmistök að ráða hann til háskólans yfirhöfuð, árið 2010, tveimur árum áður en hann tók við rektorsstöðunni.