Reiðhjólin fram á Seyðisfirði; „Bullandi vor“

14.03.2016 - 14:20
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson  -  RÚV
„Þetta er bara heitur vindur. Þetta er hið skrítnasta mál,“ segir Davíð Kristinsson, hótelstjóri á Hótel Öldunni á Seyðisfirði. Þar fór hiti í 15 stig í morgun og hefur haldist við 14 gráður í allan dag.

Landsmenn hafa undanfarna mánuði gengið hoknir í baki og reynt að herpa sig saman í köggul til að þola betur aðsteðjandi kulda og ofankomur. Davíð kannaðist ekki við að vera í neinum snjógalla þegar fréttastofa náði tali af honum móðum og másandi að sækja útiborðin sem hann ætlaði að setja upp fyrir framan hótelið. Fyrr um morguninn hafði hann reyndar farið á stuttbuxunum í ræktina.

Hann segir að krakkar á Seyðsfirði séu farnir að draga fram reiðhjólin og þá hafi bæði Lunga-skólinn og grunnskólinn verið með útikennslu í morgun. Fjöllin í Seyðisfirði eru hvítskellótt en autt að kalla niðri í þorpinu. Davíð segir að snjórinn hafi ekki horfið með neinum látum heldur bránað nokkuð friðsamlega. „Það er bullandi vor á miðjum vetri,“ segir Davíð Kristinsson á Seyðisfirði í 14 stiga hita heitri stinningsgolu. 

Eins og fram hefur komið í fréttum RÚV í dag féll hitamet á Siglufirði í gærkvöld þegar hitinn fór í 17,6 stig. Á veðurbloggi Trausta Jónssonar veðurfræðingskemur fram að þetta sé mesti hiti sem nokkru sinni hafi mælst á landinu fyrstu 26 daga marsmánaðar.  Hitinn hafi farið yfir 10 stig eða meira, á 48 veðurstöðvum í gærkvöld.

Myndin sem fylgir fréttinni er úr safni

Mynd með færslu
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV

Tengdar fréttir