Réðst á tvær konur - áfram í gæsluvarðhaldi

16.03.2016 - 10:29
Hæstiréttur Íslands
 Mynd: RÚV
Karlmaður, sem er ákærður fyrir að reyna nauðga tveimur konum í miðbæ Reykjavíkur um miðjan desember, verður í gæsluvarðhaldi til 11. apríl. Þetta var staðfest með dómi Hæstaréttar í gær. Sakamál gegn honum var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur 10. febrúar, þar neitaði hann sök og var aðalmeðferð frestað til 30. mars. Maðurinn hefur setið í gæsluvarðhaldi vegna málsins frá 18. desember.

Maðurinn er sagður hafa veist að tveimur konum með skömmu millibili í því skyni að hafa við þær samræði eða önnur kynferðismök.

Báðar hlutu þær áverka og samkvæmt framburðum þeirra og annarra vitna varð það konunum til bjargar að maðurinn varð fyrir utanaðkomandi truflun, að því er fram kemur í greinargerð héraðssaksóknara.

Málið vakti nokkra athygli þegar það kom upp. Lögregla birti meðal annars myndir af honum í fjölmiðlum og barst fjöldi ábendinga í framhaldinu.