Rannsókn hætt á verkum sem merkt eru Svavari

Dóms- og lögreglumál
 · 
Innlent
 · 
Menningarefni
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot  -  RÚV

Rannsókn hætt á verkum sem merkt eru Svavari

Dóms- og lögreglumál
 · 
Innlent
 · 
Menningarefni
09.02.2016 - 14:59.Freyr Gígja Gunnarsson
Yfirmaður hjá efnahagsbrotadeild lögreglunnar í Kaupmannahöfn hefur tilkynnt Ólafi Inga Jónssyni, forverði hjá Listasafni Íslands, að hann hafi hætt rannsókn á máli tveggja málverka sem bjóða átti upp hjá Bruun Rasmussen í september 2014. Ekkert bendi til þess að eigendur málverkanna hafi vitað af því að þau kynnu að vera fölsuð og brot þeirra, sem mögulega seldu fölsuð verk, séu fyrnd. Hann bendir jafnframt á að annað verkanna tengist tveimur sakborningum í stóra málverkafölsunarmálinu.

Ólafur Ingi hefur fjórar vikur til að kæra þessa ákvörðun efnahagsbrotadeildarinnar til ríkissaksóknarans í Danmörku.  Ólafur kærði fyrir tveimur árum uppboð Bruun Rasmussen til embættis sérstaks saksóknara hér á landi sem vísaði málinu til dönsku lögreglunnar.

Kaupmannahafnarlögreglan stöðvaði uppboðið nokkrum klukkstundum áður en það átti að fara fram en í kæru Ólafs Inga sagði meðal annars að verkin tvö væru lélegar stælingar á Svavari Guðnasyni. Henrik Helmer Steen, yfirmaður hjá efnahagsbrotadeild dönsku lögreglunnar, rekur í bréfi til Ólafs Inga rannsókn dönsku lögreglunnar.

Þar kemur meðal annars fram að eigandi annars málverksins hafi keypt það hjá viðurkenndum listmunasala í Kaupmannahöfn 1994. „Engin ástæða er til að ætla að hann hafi vitað af því að verkið kynni að vera falsað,“ segir í bréfi danska lögreglumannsins. 

Hitt verkið höfðu hjón keypt af listmunasala hjá Galleri Profilen fyrir rúmum tuttugu árum. Danski lögreglumaðurinn telur enga ástæðu til að ætla að hjónin hafi haft vitneskju um að verkið kynni að vera falsað.

Lögreglumaðurinn danski segir að sá grunur hafi vaknað að sömu aðilar hafi staðið að innflutningi verkanna til Danmerkur.  Því hafi Lars Fog-Paulsen, eigandi Galleri Profilen, verið yfirheyrður.  Sá upplýsti að forsvarsmenn galleríisins hafi farið til Íslands í tengslum við sýningu á verkum Svavars og valið þar verk í samvinnu við ekkju listamannsins. 

Lögreglumaðurinn segir í bréfinu að umræddur Paulsen hafi upplýst við skýrslutöku að maður að nafni Pétur Gunnarsson hafi sett sig í samband við galleríið meðan á Íslandsheimsókninni stóð.  

Pétur er í bréfi danska lögreglumannsins sagður hafa komið þeim í samband við annan mann, Jónas Þorsteinsson,  sem bauð til sölu verk sem hann sagði vera eftir Svavar.  Það reyndist vera annað verkanna sem lögreglan í Kaupmannahöfn lagði hald á hjá uppboðshaldaranum Bruun Rasmussen 20 árum seinna.

Lögreglumaðurinn segir í bréfi sínu að Pétur og Jónas hafi verið meðal sakborninga í málum tengdum málverkafölsunum. Pétur var dæmdur í sex mánaða fangelsi fyrir að selja fölsuð málverk.  Pétur og Jónas voru hins vegar báðir sýknaðir í Hæstarétti í stóra málverkafölsunarmálinu árið 2004.

Tengdar fréttir

Dóms- og lögreglumál

Verk Svavars oftast verið fölsuð

Myndlist

Datt ekki í hug að verkin væru fölsuð

Menningarefni

Uppboð stöðvað vegna meintra falsana