Rannsaka loftgæði við skóla í Lundúnum

13.09.2017 - 16:28
epa05749710 Exhaust fumes during heavy traffic in central London, Britain, 25 January  2017. Reports suggest London pollution is reaching dangerous levels, with London's pollution levels worse than that of Beijing.  EPA/ANDY RAIN
 Mynd: EPA
Sadiq Khan, borgarstjóri í Lundúnum, hefur fyrirskipað mælingar á eiturlofti í 50 skólum í borginni. Þessi rannsókn er undanfari aðgerða til þess að draga úr loftmengun.

Breskir fjölmiðlar hafa nýverið upplýst að hundruð þúsunda barna í skólum í Lundúnum þurfi að anda að sérlega skaðlegri lofmengun frá dísilbílum. Sadiq Khan borgarstjóri segir að lofmengunin sé mesta ógn sem steðji að almannaheilsu í borginni. Að lokinni könnun verði gripið til margvíslegra aðgerða við skólana.

Meðal þess sem talið er að verði gert er að færa anddyri skóla frá umferðargötum. Einnig verði skjólbelti trjáa gróðursett meðfram umferðaræðum og á mörkum skólalóða og leikvalla.

Sérfræðingar hafa mælt með birki til að fanga sótagnir úr loftinu. Bannað verður að hafa bíla í hægagangi í nágrenni skóla. Breytingar verði gerðar á vegakerfi og umferð bíla sem menga mikið takmörkuð í nágrenni skóla.

 

Þorvaldur Friðriksson
Fréttastofa RÚV