Rannsaka brot gegn dreng í Breiðholtslaug

03.08.2017 - 11:40
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink  -  Ruv.is
Kynferðisbrotadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hefur borist kæra vegna manns sem grunaður er um að hafa brotið gegn ungum dreng í sturtuklefa Breiðholtslaugar á mánudag. Þetta staðfestir Kristján Ingi Kristjánsson, yfirmaður deildarinnar, í samtali við fréttastofu.

DV greindi fyrst frá málinu. Kristján Ingi vill að öðru leyti ekki tjá sig um það og ekki svara því hvort einhver liggur undir grun. „Rannsóknin er bara á frumstigi,“ segir hann.

Nafnlaus póstur birtist um atvikið í gærkvöld á Facebook-hópnum Mæðratips sem fjórtán þúsund manns eru í. Þar er óskað eftir upplýsingum um hvort einhver hafi séð eitthvað í sturtuklefanum á þessum tíma. Þar kemur einnig fram að drengurinn hafi verið á sundnámskeiði. Sömu upplýsingum hefur einnig verið dreift í Facebook-hópnum Betra Breiðholt.

Steinþór Einarsson, skrifstofustjóri hjá ÍTR, segir í samtali við fréttastofu að starfsfólk Breiðholtslaugar hafi fyrst frétt af atvikinu hjá lögreglunni. Hann segir að því sé eðlilega brugðið og að það muni aðstoða lögregluna eftir fremsta megni. „Hún hefur verið að fá upptökur úr eftirlitsmyndavélum til að skoða,“ segir Steinþór. 

Hann segir að eftirlit með sturtuklefum hafi ekki verið eflt sérstaklega eftir atvikið en þó sé alltaf reynt að fylgjast grannt með þegar skólasund og sundnámskeið eru í gangi. 

 

Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV