Rándýr afmælisveisla Mugabes í skugga hungurs

27.02.2016 - 20:55
epa05175245 Zimbabwean President Robert Mugabe blows out the candles on his birthday cake during his birthday event at state house in Harare, Zimbabwe, 22 February 2016. Mugabe, who has been ruling the country since 1987, turned 92 on 21 February 2016.
 Mynd: EPA
Stjórnarandstæðingar í Simbabve segja að sú ákvörðun stjórnvalda að verja meira en hundrað milljónum íslenskra króna í afmælisveislu forsetans, Roberts Mugabe, sé svívirðileg. Meira en níutíu prósent landsmanna búi við sára fátækt og hungursneyð sé talin yfirvofandi í landinu.

Þá er ríkisstjórnin sérstaklega gagnrýnd fyrir að halda afmælisveisluna í því héraði sem farið hefur einna verst út úr þurrkum undanfarið. Ríkisstjórnin viðurkenndi á dögunum að um þrjár milljónir íbúa Simbabve væru við hungurmörk vegna þurrkana og fóru fram á alþjóðlega matvælaaðstoð.

Veislan var haldin þegar Mugabe varð 92 ára á dögunum en hann hefur verið við völd sem forsætisráðherra, og síðar forseti, síðan landið öðlaðist sjálfstæði árið 1980. 

Gunnar Hrafn Jónsson
Fréttastofa RÚV