Ragnheiður Elín: „Látum verkin tala hratt“

17.02.2016 - 19:53
Mynd með færslu
Helsta ástæða metafgangs af vöru- og þjónustuviðskiptum hér á landi.  Mynd: RÚV
Ný markaðsherferð í ferðaþjónustu miðar ekki að því að fjölga ferðamönnum, heldur kenna ábyrga hegðun á Íslandi, segir forstöðumaður hjá Íslandsstofu. Iðnaðar- og viðskiptaráðherra segir að nú verði verkin látin tala í uppbyggingu á meðan framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar segir stjórnvöld hafa sýnt skilningsleysi í þeim efnum.

Íslandsstofa stóð fyrir ráðstefnu í morgun undir yfirskriftinni markaðssetning í breyttu umhverfi. Þar var kynnt ný markaðsherferð þar sem áhersla er lögð á að fræða ferðamanninn. „Við erum að horfa svolítið til ábyrgrar ferðahegðunar, og við ætlum að gera það á svolítið skemmtilegan máta, við ætlum að svara aðeins kallinu um hvernig ferðamenn eru að hegða sér á Íslandi,“ segir Inga Hlín Pálsdóttir forstöðumaður ferðaþjónustu hjá Íslandsstofu. Hún segir að takmarkið sé ekki að fjölga ferðamönnum.

Góður rómur var gerður að herferðinni á ráðstefnunni. Helga Árnadóttir framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar segist frekar vilja beita fræðslu en forræðishyggju. „Mér finnst þessi markaðsherðferð passa þess vegna fullkomlega við þær áherslur sem við viljum og þurfa að leggja á í dag.“

Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra segir þetta líka ríma vel við það sem stjórnvöld séu að gera.  „Við erum farin að huga að nákvæmlega þeim viðfangsefnum sem ferðaþjónustan er að glíma við núna og við öll - það er að tryggja öryggi og auka upplýsingar.“

Inga Hlín segir upplýsingagjöf í gegnum samfélagsmiðla, vefsíður og erlenda fjölmiðla hluta af því að fræða ferðamenn. „Og við getum reynt að nýta þá til að koma réttum skilaboðum á framfæri og nýta það eins vel og við getum.“

Ragnheiður Elín telur þetta átak gott skref í að auka öryggi ferðamanna. „Þetta eru þau viðfangsefni og áskoranir sem hefði kannski átt að vera búið að leysa fyrir tíu árum síðan eða einhverjum árum síðan. Það hefur þó margt þegar verið gert með aðstoð framkvæmdasjóðs ferðamannastaða. Það verða nýjar tillögur afgreiddar á næsta fundi stjórnstöðvar ferðamála í byrjun mars. Við ætlum að láta verkin tala hratt og örugglega og ég vona svo sannarlega að við sjáum úrbætur hratt og örugglega þegar við erum búin að koma þessum tillögum í gang.“

Helga segir þó að stjórnvöld hafi sýnt skilningsleysi varðandi fjármögnun innviða í ferðaþjónustu, meðal annars með því að tala um að „eyða“ fjármunum í innviði. „Gjaldeyristekjur frá ferðaþjónustunni hafi aukist um hundrað milljarða síðustu tvö árin, og þá er ég aðeins að tala um aukningu. Þannig að tækifærin eru svo sannarlega til staðar og það er stjórnvalda að nýta þau. Fjármagninu getur ekki verið betur varið.“

Mynd með færslu
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV