Raftæki bönnuð á leið til Bandaríkjanna

21.03.2017 - 01:24
Mynd með færslu
Bannið á meðal annars við um flug frá Egyptalandi að sögn Financial Times.  Mynd: AP
Farþegum í flugi frá nokkrum ríkjum Mið-Austurlanda til Bandaríkjanna verður meinað að nota önnur raftæki en farsíma um borð í flugvélum. Frá þessu greinir AFP fréttastofan og hefur eftir upplýsingum frá flugfélögum. Í færslu Saudi Airlines flugfélagsins á Twitter segir að viðskiptavinir þess megi ekki hafa stærri raftæki en farsíma um borð.

Royal Jordanian flugfélagið birti einnig svipaða færslu, en henni var síðar eytt út. Í færslu þeirra sagði að öll tæki, önnur en farsímar, yrðu að fara með farangri í farangursrými frá og með morgundeginum. Aðeins farsímar og raftæki nauðsynleg heilsu fólks væru leyfileg í farþegarými.

Bandaríska fréttastofan CNN hefur eftir ónefndum bandarískum embættismanni að bannið sé lagt á til að mæta ógn sem stafi af hryðjuverkasamtökum Al Kaída á Arabíuskaga. Í yfirlýsingu heimavarnarráðuneytisins segir að engar upplýsngar verði gefnar um mögulegar öryggisráðstafanir að svo stöddu.

Fjölmiðlum greinir á um hversu mörg ríki bannið á við. Financial Times segir nýju reglurnar bitna á átta ríkjum, þeirra á meðal Egyptalandi, Jórdaníu, Sádí Arabíu og Sameinuðu Arabísku Furstadæmunum. Guardian segir hins vegar að bannið eigi við 13 ríki.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV