Rafmagnstruflanir vegna óveðursins

04.02.2016 - 22:24
Brotnir staurar.
Úr safni  Mynd: RÚV
Talsverðar truflanir hafa orðið á dreifingu rafmagns víða um land í kvöld, sérstaklega Vestur-Skaftafellssýslu, vegna óveðursins sem þar hefur geisað.

Fyrr í kvöld sló Prestbakkalínu út en að því er fram kemur á heimasíðu Landsnets mun spennan aftur komin á hana.

Miklar annir hafa verið hjá bilanavakt RARIK á Suðurlandi, sá sem þar varð fyrir svörum í kvöld sagði að truflanir væru meðal annars á Sigöldulínu. Það hafði það í för með sér að rafmagn fór af í Vestur-Skaftafellssýslu frá Síðu að Álftaveri.

Fréttastofa hefur heyrt í fólki sem búsett er í Skaftárhreppi og þar hefur víða verið rafmagnslaust í kvöld. Átta rafmagnsstaurar eru sagðir brotnir við Flögu.  Rafmagnskynding er í flestum húsum á svæðinu og íbúar þeirra eru uggandi um að nóttin verði köld.

Raftruflanirnar virðast víðar um landið því samkvæmt upplýsingum frá Landsneti er byggðalínuhringurinn rofinn á Hólum og í Blöndu og er kerfið þannig rekið í tveimur rekstrareyjum þar til línan kemst aftur í rekstur. Vegna bilunar í línunni frá Hólum fór rafmagn af í kvöld í Öræfum, Suðursveit og á Mýrum. Ekkert ferðaveður er á þessum slóðum.

Þá leysti Vatnshamralína 1, milli Brennimels og Vatnshamra í Borgarfirði, út á sjöunda tímanum í kvöld, líklega vegna veðurs. Tveimur klukkutímum síðar var línan komin aftur inn. Enginn notandi varð fyrir skerðingu vegna þessa.

Mynd með færslu
Sveinn H. Guðmarsson
Fréttastofa RÚV