Rafmagnsskortur hamlar uppbyggingu

12.01.2016 - 12:19
Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson
Ekki er nægilegt rafmagn á Vestfjörðum til að styðja við atvinnuuppbyggingu að mati sveitarstjórans í Súðavíkurhreppi. Bæta þarf dreifikerfið fyrir milljarð króna til að kalkþörungaverksmiðja geti risið í Súðavík. Ekki hefur náðst samkomulag um aðkomu fjárfesta að bótum á flutningskerfi rafmagns til Súðavíkur.

„Það er sárgrætilegt að þegar svona verkefni kemur til okkar, og ég held að þetta sé eitt stærsta fjárfestingarverkefni sem kemur inn á Vestfirði í lengri tíma þá strandi það á einföldum málum eins og grunngerð. Við þurfum að spyrna við og þetta verkefni er sérlega vel til þess fallið," segir Pétur Markan, sveitarstjóri Súðavíkurhrepps.

Umbætur kosta milljarð

Áætlaður kostnaður Orkubús Vestfjarða við umbætur á flutningskerfinu til Súðavíkur er rúmlega milljarður. Orkubúið óskar þess að verksmiðjan greiði tæplega níu hundruð milljóna hlut í framkvæmdinni eða með samningi til svo margra ára sem það tekur að greiða niður kostnað Orkubúsins, framkvæmdir sem þessar megi ekki áhrif á hinn almenna notanda. Pétur segir skilning á þeirri afstöðu en mikilvægt að bæta stöðuna í raforkumálum á Vestfjörðum svo hægt sé að byggja upp án þess að fjárfestar þurfi að koma að þeim kostnaði sérstaklega. „Það er bara eðilegt að þeir sem ætla að nýta raforkuna borgi bara eðlilegt verð. Að sama skapi að þeir sem ætli sér að nýta auðlindina borgi bara gott auðlindagjald, og þar eigum við ekki að gefa neinn afslátt."

Fagnar áformum um hringtengingu

Sveitarstjóri fagnar því að Alþingi hefur samþykkt að veita 15 milljónum í undirbúningsvinnu á hringtengingu raforku Vestfjarða. Pétur telur annan möguleika á því hvernig tengja megi Súðavík við fullnægjanlegt flutningskerfi felast í því að hefja vinnu að hringtengingunni á milli Skutulsfjarðar og Súðavíkur, þá þyrfti Orkubúið ekki að kosta framkvæmdina. Pétur segir hringtengingu raforku á Vestfjörðum vera lykilatriði og eina af forsendum þess að þar geti orðið viðsnúningur í atvinnulífi og menningu og vísar til nýlegrar skýrslu Byggðastofnunar þar sem lýst var yfir áhyggjum vegna atvinnuþróunar á Vestfjörðum, og þá sérstaklega norðanverðum Vestfjörðum.

Mynd með færslu
Halla Ólafsdóttir
Fréttastofa RÚV