Rafmagnslaust á Ströndum

16.02.2016 - 05:23
Mynd með færslu
 Mynd: Hulda G. Geirsdóttir  -  ruv.is
Rafmagnslaust er á Ströndum, frá Bitrufirði og norður úr, og hefur verið síðan á fjórða tímanum í nótt. Starfsmaður á bilanavakt fyrir Strandir sagði nú rétt fyrir fréttir að miklar truflanir hafi verið á rafmagni frá Landsneti á fjórða tímanum. Því var brugðið á það ráð að skilja línur Orkubúsins frá hringtengingu Landsnets. Um hálffimm varð síðan bilun á Hólmavíkurlínu 2, að öllum líkindum í tengivirkinu í Geiradal.

 

Viðgerðarflokkur er á leiðinni þangað og jafnframt er unnið að því að koma á varaafli þar sem því verður við komið. Veður er slæmt á Ströndum, sem gerir viðgerðarmönnum erfitt um vik. Þegar fréttamaður ræddi við Jón Guðbjörn Guðjónsson í Litlu Ávík skömmu eftir klukkan fimm var jafnaðarvindur þar 23 m/s og hviður slógu í 32 m/s, og þá var enn að bæta í vind. 

Á heimasíðu Orkubúsins kemur einnig fram að Vesturlína, nánar til tekið Glerárskógarlína 1 hafi leyst út kl. 3.03 og voru varaflsvélar í Bolungarvík þá ræstar til að sjá norðanverðum Vestfjörðum fyrir rafmagni. Barðastrandarlína leysti út laust fyrir hálf fimm og aftur skömmu fyrir fimm og er sagt að búast megi við frekari truflunum þar vestra meðan veðrið gengur yfir. 

Fréttin hefur verið uppfærð.