Rafmagn komið á í Reykjavík

15.01.2016 - 23:56
Mynd með færslu
Það var dimmt yfir Vesturbænum í Reykjavík um tveggja tíma skeið í kvöld.  Mynd: RT  -  RÚV
Rafmagn er aftur komið á í Vesturbæ Reykjavíkur, en það datt út tíunda tímanum vegna háspennubilunar, allt frá Fornhaga að Öskjuhlíð. Rafmagnslaust var vel á þriðju klukkustund þar sem lengst var, en víðast hvar tókst að koma rafmagni á innan tveggja stunda.

Ljósastaurar og umferðarljós voru óvirk, bíógestir í Háskólabíói sátu í myrkvuðum sal og gestir á Radisson Blu, eða Hótel Sögu, lásu og spjölluðu við kertaljós á meðan, rétt eins og þúsundir íbúa hverfisins. Ekki er vitað hvað olli biluninni, en verið er að kanna háspennustrenginn sem grunaður er um að hafa brugðist. Rafmagn fór einnig af í miðborg Reykjavíkur í gær, þá bilaði háspennustrengur í Hverfisgötu. Engin tengsl eru talin á milli þessara bilana.

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV