Rætt um að banna Trump að koma til Bretlands

epa05053400 Republican presidential candidate Donald Trump speaks at the Republican Jewish Coalition Presidential Forum in the Ronald Reagan Building in Washington, DC, USA, 03 December 2015. The coalition hosted speeches from 14 different presidential
 Mynd: EPA
Umræður standa nú yfir í breska þinginu um hvort meina eigi Donald Trump að koma til landsins. Hátt í 600.000 Bretar hafa skrifað undir áskorun þess efnis að Trump synjað um vegabréfsáritun vegna þess að hann hafi gerst sekur um hatursorðræðu.

Trump nýtur mikils fylgis sem næsti frambjóðandi repúblikana í forsetakosningunum sem fram fara í Bandaríkjunum í nóvember. Hann hefur kallað eftir því að múslímum verði bannað að koma til Bandaríkjanna, í nafni þjóðaröryggis. Þá hefur Trump fullyrt að í ákveðnum hverfum London og víðar í Bretlandi, ríki slík lögleysa vegna uppgangs íslamista að lögreglan hætti sér ekki þangað.

Aðstandendur undirskriftasöfnunarinnar benda á að breska ríkið hafi áður bannað fólki að koma til landsins af slíkum ástæðum og sömu reglur eigi að gilda um Trump og aðra.

Þeir sem eru andvígir banninu telja að það gæti skaðað samskipti Bretlands og Bandaríkjanna, sérstaklega ef Trump verður forseti. Þá eigi ekki að banna fólki að koma til Bretlands, vegna skoðana þess á innanlandsmálum annars ríkis.