Ræddu trúnaðarupplýsingar í samtalinu

07.01.2016 - 19:15
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson  -  RÚV
Beint tilefni þess að lögreglumaðurinn var handtekinn 29. desember var að til embættis ríkissaksóknara barst hljóðupptaka um miðjan mánuðinn, þar sem lögreglumaðurinn ræðir við manninn sem í dag var úrskuðaður í gæsluvarðhald.

Í samtalinu er nefnd peningaupphæð, 100 þúsund krónur, en ekkert mun vera handfast í samtalinu um að sú fjárhæð ætti að berast lögreglumanninum.

Hins vegar hefur fréttastofan heimildir fyrir því að í samtalinu upplýsi lögreglumaðurinn símavin sinn um málefni sem leynt áttu að fara. Að hann hafi með því brotið klárlega gegn þagnarskyldu sinni, slíkt má kalla að lekið sé upplýsingum.

Lögreglumaðurinnn sem nú er laus úr haldi þvertekur fyrir að hafa brotið nokkuð af sér. Teknar voru af honum nokkrar skýrslur og eins hafa skýrslur verið teknar af samstarfsmönnum hans til að varpa ljósi á málið. Rannsókn þess er í fulllum gangi, þótt lögrelgumaðurnn sé laus úr haldi. Málið er fjarri því upplýst, enda er annar maður nú kominn í gæsluvarðhald, maður sem hlotið hefur nokkra dóma ma. fyrir fíknefnabrot, þó ekki mjög stórfelld.

Rannsóknin nú hlýtur ekki síst að beinast að samskiptum manna tveggja. Lengi hefur leikið grunur á að upplýsingar bærust úr fíkniefnadeildinni til brotamanna, vísbendingar þar um hafa verið kannaðar innan embættis Lögreglustjórnars á höfuðborgarsvæðinu, en það var ekki fyrr en með hljóðupptökunni sem huldumaður kom í hendur ríkissaksóknara, að formleg rannsókn hófst.