Ræða tillögu um að flýta landsfundi

03.02.2016 - 11:21
Mynd með færslu
Flokksstjórnarfundur Samfylkingarinnar á Hótel Natura í dag  Mynd: RÚV
Tillaga verður borin upp á félagsfundi Samfylkingarinnar á Akureyri í kvöld um að landsfundi Samfylkingarinnar verði flýtt fram á vorið. Í tillögunni segir að núverandi forystu flokksins hafi ekki tekist að skapa traust kjósenda á flokknum og að til að ná Samfylkingunni upp úr djúpri lægð sé best að flýta landsfundi. Þar með gæfist forystunni tækifæri til að endurnýja umboð sitt eða nýr formaður og forysta yrði kjörin.

Í tillögunni sem verður rædd í kvöld segir að þetta megi ekki seinna vera svo nýrri forystu gefist tími til að undirbúa málefni og starf flokksins og stuðla að endurnýjum fyrir næstu Alþingiskosningar. 

Ólína Þorvarðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, hvatti í gær til þess að landsfundur yrði haldinn í maí.

Í lokaorðum tillögunnar eru önnur Samfylkingarfélög hvött til að taka undir ályktunina. „Í stöðu eins og nú er uppi verða almennir flokksmenn að láta til sín taka þegar forystunni hefur mistekist að halda baráttumálunum á lofti og knýja fram nauðsynlegar þjóðfélagsbreytingar fyrir almenning á Íslandi." Tillagan verður tekin fyrir á fundi í kvöld.

Samfylkingin mælist með 9,4 prósenta fylgi í skoðanakönnun MMR sem var birt í dag. 9,2 prósent lýstu stuðningi við flokkinn í Þjóðarpúlsi Gallup sem birtist á mánudag. 

Árni Páll Árnason var endurkjörinn formaður flokksins með eins atkvæðismun á landsfundi í fyrra, þegar Sigríður Ingibjörg Ingadóttir bauð sig fram gegn honum með skömmum fyrirvara. Samkvæmt því átti næsti landsfundur að verða skömmu fyrir kosningar á næsta ári en síðan hefur verið stefnt að því að halda hann í haust.