Ráðuneytið í sambandi við konuna í Kanada

12.02.2016 - 12:41
Utanríkisráðuneyti Íslands við Hlemm.
 Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir
Íslensk kona situr í gæsluvarðhaldi í Kanada, eftir að hafa verið handtekin þar með fíkniefni í fórum sínum. Mál konunnar hefur ratað inn á borð utanríkisráðuneytisins, og hafa fulltrúar ráðuneytisins verið í sambandi við hana.

Vísir greinir frá málinu í dag. Samkvæmt frétt Vísis var konan gripin með verulegt magn fíkniefna í Kanada, og málið teygi anga sína til Mexíkó. Það hafi verið til rannsóknar íslensku lögreglunnar í samvinnu við kanadísk lögregluyfirvöld, sem hafi svo tekið yfir rannsókn málsins. Friðrik Smári Björgvinsson yfirlögregluþjónn staðfestir þetta í samtali við fréttastofu.

Vísir greinir frá því að konan hafi boðið þremur islenskum vinkonum sínum með sér í skemmtiferð til Cancun í Mexíkó í nóvember í fyrra, að því er virðist í þeim tilgangi að gera þær að burðardýrum fíkniefna án þeirra vitundar. Þegar konurnar fór að gruna að maðkur væri í mysunni, eftir að golfsett sem konan sem skipulagði ferðina bað þær að hafa með sér, var afhent íslenskum manni í Mexíkó, flýttu þær heimför sinni til Íslands og flúðu til Kanada. Þær ku hafa óttast að skipulögð glæpasamtök í Mexíkó væru að fylgjast með þeim.

Konurnar stungu vinkonu sína af og flugu frá Kanada heim til Íslands, en þær hafa verið yfirheyrðar af lögreglu hér samkvæmt heimildum Vísis. Konan sem grunuð er um fíkniefnasmyglið kom sér sjálf heim til Íslands, þaðan sem hún hélt fljótlega aftur til Kanda þar sem hún var gripin með fíkniefni, eins og áður segir.

Samkvæmt upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu hefur mál konunnar ratað inn á borð ráðuneytisins, og hafa fulltrúar þess verið í beinu sambandi við hana. Í skriflegu svari utanríkisráðuneytisins við fyrirspurn fréttastofu segir að borgaraþjónusta ráðuneytisins hafi leitast við að aðstoða konuna með öllum mögulegum ráðum, eins og ávallt sé gert þegar slík mál berast inn á borð ráðuneytisins.

 

Ægir Þór Eysteinsson
Fréttastofa RÚV