Ráðlegt að leggja sem fyrst af stað að vestan

17.04.2017 - 10:21
Mynd með færslu
 Mynd: Halla Ólafsdóttir  -  RÚV
Vegagerðin ráðleggur þeim sem ætla að keyra frá Ísafirði eða annars staðar af Vestfjörðum í dag að leggja af stað sem allra fyrst. Spá um storm og hríðarveður á fjallvegum virðist vera að ganga eftir, og á Steingrímsfjarðarheiði á að hvessa töluvert upp úr hádegi með umtalsverðri ofankomu.

Hundruð gesta voru á Ísafirði um helgina á tónlistarhátíðinni Aldrei fór ég suður. Þeir sem leggja fljótlega af stað þaðan áleiðis til höfuðborgarsvæðisins gætu þurft að gera hlé á ferð sinni í Borgarnesi og bíða þar af sér versta veðrið undir Hafnarfjalli og á Kjalarnesi. Þar er þegar farið að hvessa og vindhviður undir Hafnarfjalli hafa mælst 33 metrar á sekúndu. Búist er við að hviður fari þar upp í 45 metra á sekúndu síðdegis.

Á Hellisheiði eru hálkublettir og skafrenningur og mjög hvasst hefur verið á Grindavíkurvegi í morgun, þar sem hviður hafa mælst allt að 35 m/s. Vonskuveður er á Snæfellsnesi, snjókoma og skafrenningur og hvasst á Fróðarheiði en hægari vindur á Vatnaleiðinni. Á Suður- og Vesturlandi er gert ráð fyrir því að snjókoman breytist í slyddu og rigningu upp úr hádegi.

Norðaustan- og austanlands verður leiðindaveður í kvöld en hægara fram að því, samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni. Þá mun hvessa og skafa á vegum og það stendur fram yfir miðnætti.