Ráðist á um 80 konur í Köln á nýársnótt

04.01.2016 - 23:19
Koeln Panorama
 Mynd: Raimond Spekking  -  Wikimedia Commons
Talið er að ráðist hafi verið á 80 konur við aðaljárnbrautarstöðina í Köln, Þýskalandi, á nýársnótt. Hópur manna hafi nýtt sér upplausnarástand og ráðist á konur, rænt þær og beitt sumar þeirra alvarlegu kynferðisofbeldi. Lögregla segir að 60 kærur hafi borist. Vitað sé til þess að ráðist hafi verið á um 80 konur en þær kunni að vera enn fleiri.

Lögregla segir að klukkan ellefu á gamlárskvöld, hafi um eitt þúsund karlmenn á aldrinum 15-35 safnast saman á torginu fyrir framan aðaljárnbrautastöðina í Köln. Mennirnir hafi verið ölvaðir og skotið flugeldum að nærstöddum. Eftir að lögregla kom á staðinn og rýmdi torgið, tvístraðist hópurinn, að því er fram kemur í þýskum fjölmiðlum. Næstu klukkustundir, frá miðnætti til klukkan fjögur, hafi árásirnar átt sér stað. Konur sem lagt hafa fram kærur segja að hópar 20 til 40 manna hafi umkringt sig og rænt. Sumar urðu auk þess fyrir kynferðisofbeldi.

Lögregluyfirvöld í Köln segja að allt tiltækt lið lögreglu hafi verið á staðnum. Þrátt fyrir það hafi lögregla ekki vitað af árásunum fyrr en ákærurnar voru lagðar fram.
Borgarstjóri Köln, Henriette Reker, hefur boðað til neyðarfundar með fulltrúum lögreglunnar. Það væri ólíðandi að í borginni yrði til rými þar sem lögleysa ríki.
Fimm menn á aldrinum 19 til 24 ára voru handteknir á sunnudagsmorgun vegna svipaðra árása. Ekki er ljóst hvort þeir tengjast ofbeldinu á nýársnótt. Rannsókn þess er erfið, að sögn lögreglu.

 

 

Kári Gylfason
Fréttastofa RÚV