Ráðherra vill einfalda regluverk

21.01.2016 - 18:12
Mynd með færslu
 Mynd: Natalie Ortiz  -  ouishare
Ráðherra ferðamála vill einfalda regluverk deilihagkerfisins með nýju frumvarpi til þess að mæta nýjum veruleika um heimagistingar. Í dag eru aðeins þrettán prósent eigna á vefjum eins og airbnb með nauðsynleg leyfi.

Gríðarleg aukning á komu ferðamanna hingað til lands og stækkun deilihagkerfisins er staðreynd. Því hefur fylgt svört atvinnustarfsemi sem hægt hefur gengið að ná tökum á. Meginmarkmið frumvarps sem ráðherra ferðamála mælti fyrir á Alþingi í dag er að einfalda regluverkið, viðurkenna tilvist deilihagkerfisins og ná utan um hina svokölluðu svörtu starfsemi.

Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra segir að einungis 13 prósent þeirra eigna sem skráðar eru á  á vefjum eins og airbnb eru með tiltæk leyfi.

„Nú erum við að segja að einstaklingum er heimilt að skrá sig og sína eign, leigja hana í allt að níutíu daga á ári án þess að þurfa að fara í gegnum flókið og fráhrindandi regluverk.“

Frumvarpið nær til einstaklinga og fjölskyldna en ekki lögaðila og það verða sýslumenn sem sjá um eftirlit sem jafnframt verður aukið.

„Þetta er orðinn nýr veruleiki og með þessu erum við að gera fólki kleift að gera þetta með einföldum hætti og gera þetta á löglegan hátt þannig að deilihagkerfið fái sín notið.“

Það mun kosta átta þúsund krónur að skrá eign og fólk gefi svo tekjur af leigu upp til skatts en ráðherra segir að á þessu stigi sé ekki hægt að gefa upp hverjar tekjur ríkisins verði.

 

 

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV