Ráðast að rótum krabbameinsfrumna

05.03.2016 - 04:49
Mynd með færslu
 Mynd: Cancer Research UK
Niðurstöður nýrrar krabbameinsrannsóknar sýna að vænlegasta leiðin til þess að sigrast á æxli sé einstaklingsbundin. Lykillinn gæti verið fólginn í einstaka ónæmisfrumum hvers einstaklings.

Vísindamenn komust að því þó krabbameinsfrumur stökkbreytist, þá verði stökkbreytingarnar allar úr sömu rótum. Það sé þá jafvel hægt að einangra þær og berjast gegn þeim með ákveðnum ónæmisfrumum. Árum saman hefur vandamálið við baráttuna við krabbamein verið að æxlisfrumur eru ólíkar eftir einstaklingum.

Dr. Sergio Quezada, einn vísindamannanna að baki rannsóknarinnar, skýrir þetta þannig í viðtali við CNN: Krabbameinsfrumur sjúklings byrja allar á sama trjástofni, en vaxa svo og verða að mörgum greinum. Nýja rannsóknin sýnir að sumar ónæmisfrumur geta fellt tréð við bolinn í stað þess að klippa bara greinarnar af.

Ónæmisfruman er lögga - krabbameinsfruman höfuðpaur glæpahrings

Hann notaði aðra myndlíkingu í yfirlýsingu á vefsíðu Krabbameinsfélags Bretlands. Þar líkti hann þessu við baráttu lögreglu gegn glæpaklíku. Ónæmiskerfi mannsins væri þá lögreglan sem væri að reyna að handsama æxlið, glæpaforingjann. Stökkbreyttar æxlisfrumur eru eins og glæpagengi sem fremja mismunandi glæpi, allt frá ránum til smygls. Ónæmiskerfið á erfitt með að nálgast efra borð krabbameins, alveg eins og lögreglan á erfitt með að vera alls staðar í einu. Rannsóknin sýni að í stað þess að vera að elta glæpi út um allt, þá fær lögreglan upplýsingar um hvar höfuðpaurinn heldur sig. Sem í þessu tilfelli er rót krabbameinsins og veiki blettur þess. Þannig sé hægt að koma vandamálinu frá í eitt skipti fyrir öll.

Gæti orðið kostnaðarsamt

Quezada segir uppgötvunina geta leitt til tvenns konar meðferðar við krabbameini. Annars vegar einstaklingsbundnum bóluefnum sem myndu ráðast gegn kjarna stökkbreytinga. Hins vegar að ónæmisfrumurnar sem geta ráðist gegn stökkbreytingunum verði fundnar, og þeim fjölgað á rannsóknarstofu.

Árangur meðferðarinnar myndi svo ráðast af því hversu hratt æxlið dreifir úr sér. Tíminn sem tæki að búa til bóluefni fyrir hvern einstakling gæti tekið of langan tíma. Meðferðirnar gætu því virkað betur gegn sumum krabbameinum en öðrum. Quezada telur þær eiga eftir að henta best gegn lungnakrabbameini og sortuæxli. Þá býst hann við því að meðferðirnar gætu orðið kostnaðarsamar. Engar tilraunir hafa verið gerðar á sjúklingum hingað til. Quezada vonast til þess að hægt verði að hefja þær innan fimm ára.

36 vísindamenn tóku þátt í rannsókninni fyrir tilstilli Krabbameinsfélags Bretlands og Rosetree sjóðsins. Niðurstöður hennar eru birtar í nýjasta tímariti Science.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV