R. Kelly enn á ný sakaður um ofbeldi

17.07.2017 - 20:08
R. Kelly á tónleikum 2008.
 Mynd: Wikimedia Commons  -  Nicholas Ballasy
Tónlistarmaðurinn R. Kelly hefur enn á ný verið sakaður um ofbeldi gegn ungum konum. Foreldrar þeirra saka hann um heilaþvott og að vera leiðtogi einhvers konar safnaðar.

 

Í frétt á vef Buzzfeed er rætt við foreldra tveggja kvenna og þrjá fyrrverandi samstarfsmenn R. Kelly. Fullyrt er að minnst sex konur búi í eins konar ánauð í húsnæði sem hann á. Þær ráði litlu um hvað þær borða, hvenær þær sofi eða hvernig þær klæða sig. Þær séu ekki frjálsar ferða sinna og þurfi að biðja um leyfi til að yfirgefa húsið, eða jafnvel fara út úr herbergi sínu. Þá sé Kelly einráður í kynlífi sem hann stundar með konunum, sem jafnframt er tekið upp á myndband.

Að því er fram kemur í umfjöllun Buzzfeed, sem vitnað er til í miðlum svo sem Rolling Stone og Guardian, hafa sumar konunar skorið nær alveg á tengslin við fjölskyldur sínar. Haft er eftir móður einnar konunnar að síðast þegar hún hitti dóttur sína, í desember 2016, hafi hún litið út fyrir að hafa verið heilaþvegin. Hún hafi verið eins og fangi.

R. Kelly var handtekinn árið 2003, sakaður um að hafa barnaklám undr höndum.  Nokkru áður hafði myndband komið í ljós þar sem hann sést stunda kynlíf með 14 ára gamalli stúlku. Hann hefur gengist undir dómsátt vegna ásakana um að hafa sofið hjá barni undir lögaldri. Auk þess gekk hann í hjónaband, sem dæmt var ólöglegt, með tónlistarkonunni Aaliyah. Hún var þá 15 ára en R. Kelly 27 ára.

 

Kári Gylfason
Fréttastofa RÚV