Pútín hvetur til opinna milliríkjaviðskipta

06.07.2017 - 06:37
Russian President Vladimir Putin meets with heads of major foreign companies at the St. Petersburg International Economic Forum in St. Petersburg, Russia, Friday, June 2, 2017. (Sergei Savostyanov/TASS News Agency Pool Photo via AP)
 Mynd: AP Images
Vladimir Pútín, forseti Rússlands, talar gegn verndunarstefnu og segir viðskiptaþvinganir í garð Rússlands vegna Úkraínudeilunnar ganga gegn öllu því sem G-20 ríki standa fyrir. Þetta kemur fram í aðsendri grein sem birt er í þýska dagblaðinu Handelsblatt í dag, degi fyrir leiðtogafund G-20 ríkjanna. Í greininni hvetur hann til opinna milliríkjaviðskipta á jafnaðargrundvelli, sem hann segir einu leiðina til að ýta undir vöxt alþjóðahagkerfisins og efla samskipti ríkja.

Bandaríkin og Evrópusambandið lögðu viðskiptabann á Rússland eftir innlimun Rússa á Krímskaga árið 2014 og stuðning rússneskra stjórnvalda við aðskilnaðarsinna í austurhluta Úkraínu. Bandaríkin hertu enn frekar á viðskiptaþvingunum af sinni hálfu í júní með því að loka á viðskipti við 38 rússneska einstaklinga og fyrirtæki, sem varð til þess að Rússar hættu við fyrirhugaðan fund hátt settra embættismanna ríkjanna ásamt utanríkisráðherrum. Sergei Lavrov sagði þvinganirnar vera mikla ógn við samskipti ríkjanna. Pútín ætlar að setjast niður með Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, í Hamborg á morgun að sögn AFP fréttastofunnar.
 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV