Pútín boðar bóluefni gegn ebólu

14.01.2016 - 05:52
epa05057926 YEARENDER 2015 NOVEMBERA Liberian nurse tests the temperature of a man before entering a hospital in Monrovia, Liberia, 26 November 2015.  EPA/AHMED JALLANZO
Maður leitar sjúkdómsgreiningar í Líberíu, þar sem þúsundir hafa látist úr ebólu á undanförnum misserum.  Mynd: EPA
Vladimír Pútín Rússlandsforseti fullyrðir að rússneskir vísindamenn hafi þróað bóluefni gegn ebólu. Rússneska ríkisfréttastofan RIA Novosti hefur eftir Pútín að þar í landi sé búið sé að skrá nýtt lyf gegn ebólu, sem hafi í öllum hefðbundnum tilraunum virkað mjög vel gegn þessari banvænu veirusýkingu, mun betur en þau lyf önnur sem notuð hafa verið í heiminum til þessa.

Pútín gaf engar nánari upplýsingar um bóluefnið, svo sem niðurstöður tilraunanna sem forsetinn vísar til, hvernig það virkar, hverjir framleiða það og hvað það kallast. Ef rétt reynist væri þetta hins vegar fyrsta lyfið eða bóluefnið sem hefði afgerandi virkni gegn þessum skæða sjúkdómi, sem engin eiginleg lækning er við enn sem komið er.

Yfir 11.000 manns hafa látist í faraldrinum sem geisað hefur í Vestur-Afríku undanfarin misseri, en telst nú afstaðinn. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV