Portúgal er skraufþurrt

13.09.2017 - 20:08
Svo miklir þurrkar hafa herjað á Portúgal síðustu misseri að ástand áttatíu prósenta lands í Portúgal er nú skilgreint sem alvarlegt. Fiskur í ám drepst vegna súrefnisskorts og bændur fá ekki vatn til að veita á akra sína.

Það eru meira en 20 ár síðan svo alvarlegir þurrkar hafa verið í Portúgal. Umhverfisráðherra landsins segir að ástandið í landinu hafi versnað til muna vegna loftslagsbreytinga, þrátt fyrir að vatn hafi oft áður verið af skornum skammti, sérstaklega í syðri hluta landsins.

Í uppistöðulóninu við Pego do Alto hefur fólk oft sést synda, sigla og veiða fisk, en yfirborðið hefur lækkað svo mikið á síðustu misserum að landslagið við lónið líkist helst svipmyndum af tunglinu. Vatnsmagn í lóninu er rétt um 10 af hundraði af því sem það á að vera og fiskurinn í vatninu drepst unnvörpum vegna súrefnisskorts.

Svæðin sunnan og austan við höfuðborgina Lissabon hafa líka orðið illa úti vegna þurrka og áin Sado, sem er sjöunda stærsta á landsins er ekki svipur hjá sjón.

Bændur í Torrao, sem er 15. aldar þorp inni í miðju landi, hafa einnig orðið illilega fyrir barðinu á þurrkunum. Þeir fá hvorki vatn til að veita á akrana né til að brynna skepnunum.

Antonio, sem er 82ja ára gamall, segist aldrei hafa séð uppistöðulónið við þorpið svo vatnslítið, en opinberar tölur segja að þar séu nú einungis 18 prósent af því sem lónið á að bera. Svo lítið vatn er í brunninum við býli Antonios að fatan skellur á botninum þegar hann hendir henni niður til að ná í vatn. Hann segir vatn vera lykillinn að lífi, án vatns fari allt úrskeiðis.

 

Mynd með færslu
Jóhann Hlíðar Harðarson
Fréttastofa RÚV