Popptónlist er endalaust heillandi

Háskóli Íslands
 · 
Popptónlist
 · 
Simon Frith
 · 
Tónlist
 · 
Menningarefni
 · 
Víðsjá

Popptónlist er endalaust heillandi

Háskóli Íslands
 · 
Popptónlist
 · 
Simon Frith
 · 
Tónlist
 · 
Menningarefni
 · 
Víðsjá
Mynd með færslu
24.05.2017 - 15:24.Guðni Tómasson.Víðsjá
Popptónlist er hluti af mennskunni og siðuðu góðu samfélagi. Hún hvetur sköpunarkraftana sem búa í manninum áfram til dáða. Þetta segir breski tónlistarfræðingurinn Simon Frith sem er frumkvöðull í popptónlistarfræðum sem hann hóf að leggja stund á undir lok áttunda áratugarins.

Á undan sinni samtíð 

Simon Frith hefur lengi velt fyrir sér gildi popptónlistar í samtímanum. Fyrstu bækur sínar um efnið gaf Frith út seint á áttunda áratugnum og í upphafi þess níunda og þær höfðu margar hverjar mikil áhrif. Frith heimsækir nú Reykjavík til að tala um tónlist í erindi sem hann flytur í fyrirlestrarsalnum í Veröld - húsi Vigdísar á föstudag kl. 12. Erindið kallast Algjör rusl eða argasta snilld? Um gildi popptónlistarinnar.

Mynd með færslu
 Mynd: Youtube.com
Simon Frith

Byrjaði á tímum þegar allt var að mótast

„Á áttunda áratugnum  vann ég við tónlistarblaðamennsku bæði í Bretlandi og Bandaríkjunum sem þá var að mótast og enginn vissi nákvæmlega hvernig hún átti að vera,“ segir Frith. Ég var líka félagsfræðimenntaður og fræðimaður á allt öðru sviði og datt í hug hvort ég gæti ekki beitt minni fræðilegu hugsun á popptónlistina. Fræðitextar um popptónlist voru nýlunda en núna, þessum tæpu 40 árum síðar, er popptónlistar-fræðimennska orðin að viðurkenndri grein víða um lönd þó að sviðið sé kannski ekki stórt. Ef ég á að segjast stoltur af einhverju á mínum ferli þá er það að koma fræðilegri athugun á popptónlist inn í fræðaheim tónlistarinnar almennt og gera félagsfræði tónlistarinnar að aðferð sem flestar alvöru tónlistardeildir í háskólum álíta núna að þær þurfi að bjóða upp á.“

Vinsældir mjög spennandi

„Ég hef alltaf elskað tónlist,“ segir Frith. „Ég byrjaði að kaupa plötur 8 eða 9 ára gamall. Ég er nægilega fullorðinn til að hafa alist upp við alvöru popptónlist, þegar smáskífur stýrðu því hvað var vinsælast og því sem maður heyrði í útvarpinu. Svo kom rokkið og peningarnir í bransanum jukust, þetta var nýtt listform sem maður þurfti að taka alvarlega. Það fannst mér ágætt því það þýddi að fólk eins og ég gat skrifað um þetta fyrirbæri. Samt kunni ég alltaf best við þá tónlist sem fólk áleit að skipti ekki máli, væri ekki alvarleg. Ég var áhugasamastur um að fjalla alvarlega um tónlist sem var greinilega ekki alvarleg. Abba heillaði mig til dæmis alltaf því að tónlist þeirra var alls ekki alvarleg en náði einhvern veginn að tengjast tíðarandanum algjörlega.“

Mynd með færslu
 Mynd: commons.wikimedia.org
ABBA

Hver er galdurinn? 

Simon Frith segir breytur tónlistarinnar of margar til að hægt sé að festa fingur á hver sé galdurinn á bak við gott popplag. „Ég hef alltaf reynt að átta mig á því af hverju mér finnst eitt lag gott en ekki annað, þessi plata en ekki hin. Af hverju mér finnst einn ákveðinn tónlistarmaður leiðinlegur þó hann sé frægur og vinsæll en hinn botnlaust áhugaverður, eins og gerist þegar best lætur.“

Frith nefnir þumalputtareglu úr plötuútgáfu fyrri ára sem var að ein af hverjum 12 smáskífum sem útgefnar voru myndi ná kostnaðinum til baka. „Þegar plötubransinn var og hét gerðu menn bara ráð fyrir þessu. Ég hafði alltaf áhuga á því að fá að fylgjast með og kanna það nánar sem ekki gekk upp, en ég fékk aldrei að fylgjast með því. Ímyndin og yfirborðið gagnvart umheiminum var alltaf þannig að „allt gengi upp í plötubransanum.”” 

Stafrænt aðgengi færir kynslóðir saman

Þó að tónlistarbransinn sé í mikilli deiglu þá er Simon Frith langt í frá bara neikvæður fyrir hröðum breytingum hans: „Stafræna byltingin í tónlist gerir til dæmis það að verkum að mikið af þeirri tónlist sem krakkar og unglingar hlusta á í dag er í raun gömul tónlist, mis gömul auðvitað. En það virðist ekki skipta miklu máli hvaðan hvað kemur. Hljómsveit eins Iron Maiden, sem fer á tónleikaferðalag í dag, spilar fyrir mjög fjölbreyttan hóp. 75 prósent áhorfenda eru kannski aðdáendur í nostalgíu-kasti en restin er yngra fólk sem líkar einfaldlega við hljóminn. Það skiptir minna máli hvort tónlistin er gömul eða ný. “

epa05417702 British heavy metal band Iron Maiden performs on stage during a concert held on the occasion of the 'Resurrection Fest' in Viveiro, Galicia, Spain, 09 July 2016.  EPA/ELISEO TRIGO
 Mynd: EPA  -  EFE
Iron Maiden á tónleikum

Hér fyrir ofan má heyra ýtarlegt og fróðlegt viðtal við Simon Frith sem heldur fyrirlestur sinn í Veröld - húsi Vigdísar við Suðurgötu á föstudag kl. 12.