Pólland vekur áhyggjur Evrópusambandsins

14.01.2016 - 09:09
Eitt mikilvægasta aðildarríki Evrópusambandsins, Pólland, er nú til sérstakrar athugunar hjá sambandinu vegna hugsanlegra brota á stjórnarskrá landsins. Ný fjölmiðlalöggjöf veldur sérstaklega áhyggjum en hægristjórnin nýja í landinu er einbeitt og segir að ríkisfjölmiðillinn, Polskie Radio, hafi verið handbendi fyrri stjórnvalda. Fréttastjórinn hefur sagt af sér og ekki sér fyrir endann á málinu. Bogi Ágústsson ræddi þetta mál á Morgunvaktinni á Rás 1.

Fleira var rætt í þættinum. WADA (World Anti-Doping Agency) birtir í dag aðra skýrslu sína um lyfjanotkun í frjálsum íþróttum. Bretinn Seabstian Coe, forseti Alþjóða frjálsíþróttasambandsins, sætir miklum þrýstingi vegna þessara mála. Í heimalandi hans er spurt hvort hann hafi virkilega ekki haft neina vitneskju um lyfjamisnotkun í frjálsum íþróttum.

Þá var drepið á harðnandi umræðum í Þýskalandi um flóttamenn og aðgerðir til að bregðast við lögbrotum einstakra flóttamanna.

Loks lá leiðin yfir til Venesúela. Þar er stjórnmálakreppa til viðbótar við efnahagslegan glundroða. Þingiðsem er í andstöðu við forsetann Maduro og reynir að takmarka völd hans, en hann hefur brugðist hart við. Lágt olíuverð skekur undirstöður ríkisins, sem ekki voru burðugar fyrir.

Mynd með færslu
Óðinn Jónsson
dagskrárgerðarmaður
Morgunvaktin
Þessi þáttur er í hlaðvarpi