Pólitíkin hafi ekki höndlað framkvæmdina

02.03.2016 - 23:09
Mynd með færslu
Brynhildur Pétursdóttir spurði forsætisráðherra út í nýjan bíl ráðuneytisins.  Mynd: Anton Brink RÚV  -  RÚV Anton Brink
„Pólitíkin hún höndlar einhvern veginn ekki framkvæmdina,“ segir Brynhildur Pétursdóttir, formaður þingflokks Bjartrar framtíðar, um skýrslu um stefnu í öryggismálum ferðamanna frá árinu 2011 sem aldrei var innleidd.

 

Skipaður var starfshópur árið 2010, sem í sátu fulltrúar frá Slysavarnarfélaginu Landsbjörg, Umhverfisstofnun og Ferðamálastofu, til að setja fram stefnu í öryggismálum ferðamanna til ársins 2015. Nefndir voru 27 staðir sem áttu að vera í forgangi þegar til aðgerða yrði gripið. Þeirra á meðal eru Reynisfjara og Seljalandsfoss sem hafa verið í umræðunni undanfarið. Skýrslan var aldrei innleidd. 

„Þarna er búið að vinna grunninn, þetta snýst bara um að ganga í verkið og það þarf auðvitað fjármagn til þess en á sama tíma finnst okkur sjálfsagt að eyða mjög miklum peningum í markaðssetningu til þess að fá enn fleiri ferðamenn til landsins,“ segir Brynhildur.

Hefðir þú viljað sjá það fjármagn sem sett var í markaðssetningu sett í þessi mál? „Hluta af því. Auðvitað þurfum við að markaðssetja landið, ég geri ekki lítið úr því en ég held að við höfum svolítið misst okkur í því en gleymt okkur í því að byggja innviði og tryggja öryggi ferðamanna,“ segir Brynhildur.  

Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri setti saman starfshópinn. Hvers vegna var skýrslunni ekki fylgt eftir? „Það má kannski segja að Ferðamálastofa hafi ekki frekar en aðrar stofnanir ríkisins beint vald til að fela öðrum stofnunum eða stórnvaldsstigum verkefni,“ segir Ólöf.

Til dæmis er lagt til í skýrslunni að sveitarfélög ábyrgist umsjón ákveðinna svæða. „Og að sjálfsögðu hefur Ferðamálastofa ekkert umboð til að krefja sveitarfélög um slíkt bara svona sem dæmi.“

Ef skýrslan hefði verið innleidd fyrir fimm árum værum við í betri stöðu nú?  „Ég veit að það var lögð mikil vinna í hana og mikill metnaður og ég held að hún standi alveg fyrir sínu þannig að vissulega held ég að það hefði verið betra hefði hún verið innleidd,“ svarar Ólöf.

Hvers vegna var hún ekki innleidd?  „Það er ekki mitt að svara því. Hún var kynnt fyrir ráðuneytinu.“

 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV