Plastiðjan til Reykjavíkur

14.01.2016 - 15:17
Mynd með færslu
 Mynd: Margrét Katrín Erlingsdóttir  -  RÚV
Plastiðjan hefur framleiðslu á ný í Reykjavík fyrir lok mánaðarins, ef áætlanir ganga eftir. Þetta segir Hans A. Hjartarson fjármálastjóri fyrirtækisins í samtali við Dagskrána á Selfossi í dag. Verksmiðja Plastiðjunnar á Selfossi brann í lok nóvember. Fyrirtækið hefur framleitt gosflöskur og umbúðir fyrir matvæli, svo sem mjólkurvörur.

Hans segir í viðtalinu við Dagskrána að nýtt húsnæði fyrirtækisins á Héðinsgötu 2 í Reykjavík henti mjög vel og þar verði byrjað á flöskublæstri sem mest liggi á að koma í gang. Fyrirtækið hafi flutt inn umbúðir til að þjóna viðskiptavinum sínum og sumir þeirra hafi flutt inn umbúðir sjálfir. Fimm starfsmenn fyrirtækisins séu búsettir á Selfossi og aki til vinnu í Reykjavík. Til greina komi að setja síðan upp aðra framleiðslueiningu á Selfossi til að framleiða umbúðir undir matvæli, meðal annars fyrir Mjólkursamsöluna.

Samúel Örn Erlingsson
Fréttastofa RÚV