Plastbarkahneykslið teygir sig til Gautaborgar

29.02.2016 - 02:52
Mynd með færslu
Sahlgrenska - háskólasjúkrahúsið í Gautaborg.  Mynd: Sahlgrenska  -  Wikimedia
Plastbarkahneykslið sem skekið hefur Karolínska læknaháskólann og háskólasjúkrahúsið teygir anga sína víða. Verið er að rannsaka störf ítalska skurðlæknisins Paolo Macchiarini í Rússlandi, þar sem hann gerði sínar fyrstu tilraunir með ígræðslu plastbarka í menn, og nú hefur verið boðuð rannsókn á barkaígræðslu sem læknar við Sahlgrenska háskólasjúkrahúsið í Gautaborg framkvæmdu árið 2011.

Macchiarini kom ekki nálægt þeirri aðgerð og það var mennskur barki en ekki plastbarki sem græddur var í sjúklinginn, en læknarnir sem sáu um ígræðsluna vísuðu til aðferðar Macchiarinis, sem hann hafði lýst í vísindatímariti 2008. Þar var einnig um ígræðslu á mennskum barka að ræða.

Stjórn sjúkrahússins hefur beðið Bengt Gerdin að fara ofan í saumana á þessari aðgerð og öllu sem að henni lýtur, en Gerdin hefur áður rannsakað ásakanir um vafasamar starfsaðferðir á Karólínska. Þetta kemur fram í Sænska Dagblaðinu.

Barkaþeginn var 76 ára gamall þegar aðgerðin var framkvæmd. Barkaþeginn hafði skaddast á barka í vinnuslysi á yngri árum og leitaði til læknis vegna nýtilkominna öndunarerfiðleika, en var að öðru leyti hraustur. Rannsókn sýndi að hann var ekki lífshættulega veikur en læknarnir buðust til að bæta líðan hans með nýrri en nánast óreyndri aðferð; barkaígræðslu.

Sjúklingurinn mun hafa gefið samþykki sitt fyrir að reyna þessa nýju aðferð, og nokkru síðar fannst heppilegur gjafi, tvítugur karlmaður. Barkaþeginn lést 23 dögum síðar.

Rétt eins og á Karólínska var hér beitt nýjum og nær óreyndum aðferðum þar sem stofnfrumur komu við sögu og sjúklingurinn var ekki í lífshættu. Þá var aðgerðin á gráu svæði þar sem saman renna rannsóknir og lækningar.

Lars Grip, yfirmaður rannsókna, þróunar og kennslu við Sahlgrenska-sjúkrahúsið, segir rannsóknina nú tilkomna vegna allra þeirra upplýsinga sem fram hafa komið og spurninga sem vaknað hafa í tengslum við plastbarkaígræðslurnar á Karólínska. Komast verið til botns í því, hvort rétt hafi verið staðið að aðgerðinni á Sahlgrenska 2008.