Planned Parenthood sýknuð í Texas

26.01.2016 - 02:38
epa02166597 A general view of an exam room is seen inside the new Planned Parenthood facility in Houston, Texas, USA 20 May 2010. The six-story Planned Parenthood building is the largest in the US.  EPA/AARON SPRECHER
Skoðunarstofa Planned Parenthood í Texas.  Mynd: EPA
Planned Parenthood, frjáls félagasamtök sem sjá fólki fyrir heilbrigðisþjónustu á borð við getnaðarvarnir og fóstureyðingar, voru sýknuð í Texasríki í kvöld af ákærum fyrir að selja fósturhluta til að afla samtökunum tekna. Breska ríkisútvarpið BBC greinir frá þessu. Kvikmyndatökumenn voru þess í stað ákærðir fyrir að eiga við opinber gögn.

Samtökin The Center for Medical Progress, CMP, sem berjast gegn fóstureyðingum, notuðu falda myndavél til þess að klekkja á starfsfólki Planned Parenthood. Nokkrir félagar úr CMP þóttust vera vísindamenn og komu á fundi við starfsfólk Planned Parenthood. Þar ræddu þeir kaup á fósturvefjum. Planned Parenthood sagðist taka á móti lágri greiðslu fyrir að gefa fósturvefinn frá sér en enginn gróði væri af viðskiptunum. Nú er stofnunin hætt að taka við greiðslum fyrir fósturvef.

Lögð var fram kæra gegn stofnanda CMP, David Daleiden, í kvöld. Hann er bæði sakaður um að eiga við opinber gögn og fyrir líffærakaup.

Myndbandið var klippt til svo starfsmenn Planned Parenthood litu verr út. Það hefur ekki stöðvað þingmenn repúblikanaflokksins í því að nota það sér til stuðnings við að krefjast skerðingar á opinberum stuðningi við samtökin. Barack Obama heitir því að beita neitunarvaldi gegn frumvörpum sem ætlað er að knésetja Planned Parenthood.

Myndbandsupptakan var til rannsóknar í tíu ríkjum Bandaríkjanna auk Texas. Níu ríki hafa sýknað Planned Parenthood en enn á eftir að útkljá málið í Arizona og Louisiana.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV