Plan eða ekki plan?

Lestin
 · 
Menningarefni

Plan eða ekki plan?

Lestin
 · 
Menningarefni
Mynd með færslu
21.04.2017 - 11:16.Eiríkur Guðmundsson.Lestin
Hvað gerist þegar hið menningarlega verðmæti fellur í skuggann á hinu efnahagslega? Sóla Þorsteinsdóttir fjallar um mikilvægi millibilsástandsins og hina ómetanlegu reynslu sem ungt fólk öðlast með því að flytja erlendis, þegar áherslan er öll á að „vera með plan“.

Sóla Þorsteinsdóttir skrifar:

Unga fólkið og húsnæðið

„Ekki gefast upp” segja þeir. Hvað ef það er kannski bara betra að gefast upp, allavega um stund, og koma ferskari til baka? Ekki misskilja mig. Ég á ekki við uppgjöf í hinum versta skilningi, en af hverju verð ég að berjast við að halda mér á floti hérna heima? Þegar ráðherra húsnæðismála telur það hættulegt að skuldsetja sig í núverandi ástandi. Þegar bankar reyna að selja mér að þetta sé mér að kenna. Þegar ég get svo bara allt eins flutt annað. Flutt erlendis og öðlast ómetanlega reynslu, sem nýtist svo margfalt þegar ég flyt heim aftur. Ef ég flyt heim aftur. Það er kannski þetta ef sem hræðir fólk í dag, af því það veit að ungt fólk getur haft það betra annars staðar. Það er nefnilega ekki mikið sem heldur ungu fólki heima í dag, og er það varla við þetta sama unga fólk að sakast. Þetta er ekki af því við vorum ekki með plan, nei, þetta er því stjórnvöld hafa brugðist ungu fólki, aftur og aftur og aftur.

Úr landi

Ísland er svo lítið samfélag, að við gleymum því að til séu aðrar leiðir en fyrir okkur eru lagðar. Og ekki skánar það nú. Á þeim tíma, þegar krakkar eru að skríða upp úr menntaskóla og ættu að vera taka sín fyrstu skref á eigin fótum, þá leggjum við áherslu á að þrengja sjóndeildarhring þeirra og halda þeim í foreldrahúsum, í stað þess að víkka sjóndeildarhringinn; flytja út á eigin spýtur, eða bókstaflega úr landi. Við hefðum öll gott af því að breyta um umhverfi, upplifa ólíka menningu og finna það á eigin skinni hvað ísland er í raun lítið samfélag. Hvað það getur verið gott að rölta um stórborg þar sem þú þekkir engan á götum úti. Fara í nám þar sem þú þekkir engan. Engin fyrrverandi hjásvæfa, eða eldri frænka sem vill staldra við í spjall í bónus þegar þig langar bara heim upp í sófa. Útlönd þar sem þetta er bara þú, og allir hinir. Ég held það sé sérstaklega mikilvægt fyrir hinn unga íslending að upplifa sig ósýnilegan. Við erum svo góðu vön að það er hollt að þurfa að standa á eigin fótum í ókunnugu landi.

Að flytja út

Já, að flytja út er erfitt. En það er hollt. Það er mikilvæg reynsla fólgin í því að flytja burt frá Íslandi, og átta sig á því hve lítil við erum.  Það er menningarlegt verðmæti fólgið í þessu ferli, ekki bara fyrir einstaklinginn sem flytur út, heldur einnig fyrir samfélagið í heild. Ekki nóg með að við lærum þá að meta hið góða sem við höfum á Íslandi,heldur erum við bætt af því að eiga fólk sem kann þýsku, frönsku, japönsku. Öll önnur tungumál. Sem veit hvernig aðrar þjóðir vinna, hugsa og gera hlutina öðruvísi en við. Skilja það sem við skiljum á annan hátt. Það er tilfinning og reynsla sem fæst ekki ef þú neyðist til að búa heima hjá mömmu og pabba til fertugsaldurs til þess eins að eiga fyrir íbúð sem markaðurinn sagði þér að þú yrðir að eiga.

Menningarlegt gildi hlutanna

Hvað um að asnast bara til að breyta þessu úrelda kerfi? Nú viðurkenni ég að ég er persónulega líklegri til að líta á menningarlegt gildi hlutanna fremur en efnahagslegt, og lái mér það hver sem vill, en ég meina… þegar við lítum til baka, í gegnum heimssöguna. Hvort lítum við til þeirra þjóða sem voru hve ríkastar! Best klæddar! Áttu fallegustu munina! Eða þeirra sem virkilega lögðu rækt við sína menningu, list, bókmenntir… eitthvað sem virkilega situr eftir. Og við, litla samfélagið sem við erum, getum ekki ræktað menningu okkar sem skildi ef við sitjum öll heima. Nú er ég ekki að halda því fram að við ættum að gefast upp á húsnæðisvandanum sem slíkum. Þetta er vandamál, en þetta er ekki vandamál sem er við unga fólkið að sakast. Og við ættum ekki að svipta það frelsinu sem fylgir því að flytja erlendis, ef það kýs að gera svo. Leyfum ungu fólki að fara út, en pössum á meðan að mynda þannig samfélag heima við að það sé tilbúið að koma heim aftur. Ef þau koma ekki heim aftur er það ekki af því að þau voru ekki með plan, heldur af því að við sem samfélag höfum brugðist.