Píratar vilja að fundir þingnefnda verði opnir

24.02.2016 - 22:58
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson
Þingflokkur Pírata hefur lagt fram frumvarp á Alþingi þar sem lagt er til að fundir allra fastanefnda Alþingis verði opnir almenningi og fjölmiðlum. Þó verði hægt að halda fundi fyrir luktum dyrum ef fjalla á um gögn eða upplýsingar sem nefnd tekur við í trúnaði, ef starfsmenn Stjórnarráðsins koma fyrir þingnefnd eða ræða skal mál sem varðar þjóðaröryggi.

Frumvarpið ætti ekki koma á óvart því Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, hefur endað ófáar ræður sínar á Alþingi með þeim orðum að fundir fastanefnda Alþingis séu alla jafna opnir.

Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að því sé ætlað að stuðla að því að fjölmiðlaumfjöllun og umræða meðal almennings geti farið fram samhliða nefndarstörfum en ekki einungis eftir að nefnd hafi afgreitt mál og það tekið til umræðu í þingsal að nýju. „Slíkt fyrirkomulag mundi enn fremur veita almenningi og öðrum hagsmunaaðilum færi á því að koma á framfæri athugasemdum og ábendingum áður en mál væri komið á lokastig þinglegrar meðferðar.“

Þá bendir þingflokkur Pírata á að það sé orðið æ algengara að vitna til þess sem nefndarmenn eða gestir hafi sagt á lokuðum fundum þrátt fyrir að slíkt sé strangt til tekið óheimilt samkvæmt núgildandi lögum um þingsköp Alþingis. „Flutningsmenn telja þá þróun skiljanlega í ljósi þess að á nefndarfundum koma oft fram mikilvæg atriði sem varða mál sem eru til umfjöllunar á Alþingi og eiga erindi við almenning. “

 

 

Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV