Píratar kenna stefnumálavinnu

06.03.2016 - 12:26
Mynd með færslu
Frá fundi Pírata í dag  Mynd: RÚV
Unnið er að breytingum á nokkrum stefnumálum Pírata á vinnustofu þeirra sem lýkur síðdegis. Vinnan er ekki síst hugsuð til að kynna lýðræðisleg vinnubrögð hreyfingarinnar, segir formaður framkvæðaráðs. Samkvæmt skoðanakönnun fengju Píratar 25 þingmenn ef kosið yrði nú.

Fá 25 þingmenn

Píratar mældust með tæplega 36 prósenta fylgi í þjóðarpúlsi Gallups sem kynntur var á miðvikudag. Samkvæmt útreikningum Gallups myndu þeir fá 25 þingmenn ef kosið yrði nú. 

Ekki unnið í stóru málunum

Píratar hafa um helgina staðið að stefnumálavinnustofu á Grand hóteli. Erna Ýr Öldudóttir formaður framkvæmdaráðs segir verið að kenna þátttöku í lýðræðinu en hægt sé að hafa áhrif ef áhugi er fyrir hendi.  
„Öfugt við það sem margir halda þá eiga Píratar fjöldann allan af stefnumálum. Og það við erum að gera núna er í rauninni að kenna stefnumálavinnu eins og við vinnum hana.“
Farið er yfir eldri stefnumál Pírata og skerpt á þeim. Ekki er verið að fara yfir stóru málin, ef svo má segja. Þannig eru ýmis mál þegar í vinnu til dæmis efnahags-, heilbrigðis- og landbúnaðarmál. 

Hægt að hafa áhrif ef fólk hefur áhuga

Breytingartillögurnar sem kunngerðar verða síðdegis verða lagðar fyrir félagsfund. Hann kýs þær svo inn í kosningakerfi Pírata. Þar geta svo félagar og aðrir sem skráðir eru inn í kosningakerfið kosið um þær.
„Það sem við erum að reyna að kenna fólki það er þátttaka í lýðræðinu og að valdefla fólk. Sem sagt að áhrifin og völdin tilheyri ekki einhverri elítu eða einhverjum útvöldum heldur að það sé sem sagt valdið og áhrifin hjá almenningi. Lýðræðið er fyrirhafnarsamt og fólki er kannski ekki hérna vant því að taka þátt eða leggja sitt af mörkum. En hérna við erum að reyna að sýna fram á að það er hægt ef að fólk hefur áhuga.“