Píratar búa sig undir alþingiskosningar

02.02.2016 - 19:58
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Píratar eru farnir að undirbúa sig fyrir alþingiskosningar á næsta ári. Fyrrverandi þingmaður flokksins hvetur þá, sem aðhyllast gildi og stefnu Pírata og telja sig eiga erindi í framboð, að taka þátt.

Píratar eru nú stærsti stjórnmálaflokkur landsins samkvæmt skoðanakönnunum og hafa verið í tæpt ár. Í síðustu kosningum fengu þeir þrjá þingmenn. Gangi kannanir eftir stækkar þingflokkurinn til muna.

Undirbúningur fyrir næstu kosningar er þegar hafinn í flokknum. „Á síðasta aðalfundi Pírata þá samþykktum við stefnu um að framboðsferlið sjálft skyldi grundvallast á ákvæði grunnstefnu um vel upplýstar ákvarðanir og framkvæmdaráðinu væri þá gert að tryggja að svo væri. Það er fyrsti naglinn, það er kannski höfuðsteinninn inn í þá vinnu. En nú þurfum við að fara í þá vinnu að undirbúa það ferli þannig að Píratar, við val á framboðslistum geti tekið vel upplýstar ákvarðanir,“ segir Jón Þór Ólafsson, pírati. 

Jón Þór segir eflaust einhverja frambjóðendur farna að banka upp á, hann hafi sjálfur lítið tekið eftir því. Formaður stjórnar Félags eldri borgara í Reykjavík hefur talað um að félagið bjóði sig fram með Pírötum. Hann hvetur alla, eldri borgara sem aðra sem telja sig hafa eitthvað fram að færa, að gefa sig fram. Gera má því skóna að meðalaldur stuðningsmanna flokksins hafi hækkað frá síðustu kosningum og því vaknar sú spurning hvort taka þurfi tillit til þess.

 

„Það sem við höfum gert er að vinna vinnuna. Það er grunnstefna Pírata að varðveita borgaraleg réttindi og lýðræðisumbætur, það er þar sem við höfum sett fókusinn,“ segir Jón Þór. „Við höfum sett lítinn fókus á sérstaka hópa eða slíkt. En eins og við höfum sýnt að fólk sér að það er góð vinna unnin því líkar grunnstefnan það vill sjá þessar breytingar og þá kemur það og tekur þátt. “