Persónuupplýsingar okkar eru verðmæt söluvara

Almenningur verður að átta sig á því að fyrirtæki nota samfélagsmiðla til að safna persónuupplýsingum og stunda stórtæka gagnavinnslu, segir forstjóri Persónuverndar. Það blasi við að þessar upplýsingar séu dýrmæt söluvara, og jafnvel notaðar til að stjórna niðurstöðum kosninga í lýðræðisríkjum. Hún vonar að ný Evrópulöggjöf veiti fólki betri vernd gagnvart slíkri gagnasöfnun.

Tækin okkar eru alltaf að verða klárari. Þau þrífa heima hjá okkur og mæla hversu mikið við hreyfum okkur, og senda okkur upplýsingar um það í símann. Við getum deilt þeim, og samskipti okkar við vini og ættingja fara að miklu leyti fram á samfélagsmiðlunum. En hver á þessi gögn? Fær tryggingafélagið upplýsingar úr hlaupaúrinu, og má ryksugufyrirtækið senda tilboð um teppasjampó þegar ryksuguróbótinn segir til? 

„Tækniframfarirnar hafa opnað fyrir þann veruleika, að hafin er gríðarleg upplýsingavinnsla um atriði sem engan óraði fyrir,“ segir Helga Þórisdóttir forstjóri Persónuverndar. „Þessi upplýsingavinnsla kemur í raun í bakið á okkur, vegna þess að við erum að gefa gríðarlega miklar upplýsingar, og við höfum ekki áttað okkur á því hvernig stjórnvöld, einkaaðilar og aðrir munu vinna með þetta.“

Áhrif á kosningar
 
Ný tegund gervigreindar gerir fyrirtækjum eins og Cambridge Analytica kleift að safna miklu magni upplýsinga af facebook og úr persónuleikaprófum af netinu til að sérsníða upplýsingar og áróður til að hafa áhrif á skoðanir og hegðun einstaklinga á samfélagsmiðlunum - og í kjörklefanum. Framboð Donalds Trumps og útgöngusinnar í Brexitkosningunum í Bretlandi nutu góðs af þjónustu fyrirtækisins í fyrra. 

Helga segir þessar fréttir áhyggjuefni.

„Eitt er að vinna úr upplýsingunum og ákveða að einn borgi meir en annar fyrir sömu vöruna. Hitt er hvort þessar upplýsingar séu í rauninni farnar að stjórna niðurstöðum í lýðræðisríkjum, hvort sem það er í forsetakosningum eða hvort land eigi að vera í ákveðnu ríkjasambandi eða ekki. Og það eru þessar staðreyndir sem blasa við okkur, og þessi mikla persónuvinnsla, því þetta er allt meira og minna vinnsla persónuupplýsinga, sem við sáum ekki fyrir að yrði nýtt með þessum hætti og kæmi í raun í bakið á okkur.“

Bindur vonir við nýja persónuverndarlöggjöf

Evrópsk persónuverndaryfirvöld fjölluðu um þessar nýju aðstæður, sem kallað hafa verið Big Data, eða gagnagnótt, á ráðstefnu í Marokkó í haust. Þá hafa þingmenn Evrópuþingsins kallað eftir atkvæðagreiðslu um lagalega stöðu vélmenna.

Helga segir að Evrópubúar njóti mun betri persónuverndar en Bandaríkjamenn. Nýrri og hertri Evrópulöggjöf sé ætlað að bregðast við gagnagnóttinni og tryggja neytendum stjórnina yfir eigin upplýsingum. Löggjöfin tekur gildi vorið 2018 í Evrópu, og á Íslandi um leið og hægt er að innleiða hana hér.

Kröfur verða meðal annars hertar um samþykki notenda fyrir því að gefa frá sér persónuupplýsingar, og fyrirtæki verða að veita nákvæmar og einfaldar upplýsingar um til hvers þær verða notaðar.

„Erlend stórfyrirtæki, til dæmis amerískir tæknirisar, munu þurfa að fara að þessari nýju löggjöf ef þeir vinna upplýsingar um evrópska ríkisborgara,“ segir Helga. „Og þá bætast við sektarheimildir upp á 20 milljónir Evra, eða sem nemur 4% af heildarársveltu á heimsmarkaði. Þetta eru staðreyndir sem þessi fyrirtæki þurfa að horfa á. Og þið getið ímyndað ykkur upphæðirnar ef þessi stórfyrirtæki sem oftast eru nefnd, eins og Facebook og Google, lenda í eftirliti og það þykir sýnt að þau hafi ekki farið að lögunum.“

Þú ert söluvaran

Margir taka þátt í ókeypis leikjum og laufléttum persónuleikaprófum á Facebook - en þau eru ekki öll þar sem þau eru séð. Almenna reglan er sú, að ef maður borgar ekki fyrir vöruna, þá er maður sjálfur söluvaran.

„Við verðum að átta okkur á því að þetta er lifibrauð margra fyrirtækja að fara í úrvinnslu á þessum upplýsingum um okkur,“ segir Helga. “Þessar upplýsingar eru nýttar í rekstri fyrirtækja, og við erum að hleypa fyrirtækjum að allt of miklum upplýsingum um okkur. Og þegar einstaklingar ákveða að taka þátt í persónuleikaprófum eða könnunum, þá þurfa þeir að hafa í huga að þótt allt líti út eins og þetta sé í gamni gert, þá er mjög alvarlegur undirtónn í þessu öllu. Og við þurfum að gera okkur grein fyrir að þessi alvarlega vinnsla persónuupplýsinga er að eiga sér stað og að okkar persónuupplýsingar eru mjög dýrmæt söluvara.“