Páll studdi ekki ráðherratillögu Bjarna

11.01.2017 - 10:22
Frá þingsetningu 6. desember 2016.
 Mynd: Eggert Þór Jónsson  -  RÚV
Páll Magnússon, oddviti Sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi, segist á Facebook-síðu sinni ekki hafa stutt tillögu Bjarna Benediktssonar, formanns flokksins, um ráðherra flokksins. Páll segir að hún hafi falið í sér lítilsvirðingu gagnvart Suðurkjördæmi þar sem flokkurinn hafi unnið sinn stærsta sigur í kosningunum.

Þetta kemur fram á Facebook-síðu Páls. Hann segir enn fremur að þessi ráðherraskipan hafi gengið í veigamiklum atriðum gegn því lýðræðislega umboði sem þingmenn Sjálfstæðisflokksins hefðu áunnið sér í prófkjörum og síðan kosningum í haust.

Páll tekur þó fram að þessi gagnrýni hans hafi auðvitað ekkert með þá sem valdir voru sem ráðherrar - þau séu öll hið vænsta fólk og hann óski þeim hjartanlega til hamingju.

Enginn ráðherra kemur úr Suðurkjördæmi þar sem flokkurinn er með fjóra þingmenn. Hins vegar verður Unnur Brá Konráðsdóttir, sem skipaði fjórða sæti á lista flokksins,  forseti Alþingis.

Páll lagði Ragnheiði Elínu Árnadóttur, þáverandi iðnaðar-og viðskiptaráðherra, í prófkjöri flokksins í Suðurkjördæmi.  Ragnheiður ákvað í framhaldinu að þiggja ekki sæti á lista flokksins og tilkynnti að hún væri hætt í stjórnmálum.