Pálína: Erum til alls líklegar

24.02.2016 - 10:27
Landsliðskonan Pálína María Gunnlaugsdóttir var gestur í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun, en íslenska kvennalandsliðið í körfubolta tekur á móti Ungverjalandi í undankeppni EM 2017 í kvöld. Ungverjar eru með sterkt lið og með fullt hús stiga eftir þrjá leiki, en Ísland hefur enn ekki unnið leik í undankeppninni.

„Við spiluðum við Ungverja í nóvember í Ungverjalandi og þegar það voru fimm mínútur eftir af leiknum vorum við bara sex stigum undir. Þannig við eigum alveg að geta hangið aðeins í þessum liðum þó þetta séu stórir bitar. Ef við eigum stjörnuleik í kvöld þá erum við til alls líklegar,“ sagði Pálína meðal annars í morgun.

Liður í því að taka næsta skref

„Við erum eiginlega litla liðið í þessum riðli. En það er bara partur af því að taka næsta skref. Við höfum eiginlega ekkert fengið svona leiki síðustu ár. Við höfum verið í Smáþjóðaleikunum og á Norðurlandamótum. En þetta er fyrsta skrefið í rétt átt að komast á hærri stall að spila við þessi stærri lið eins og gegn Ungverjum í þessari undankeppni,“ sagði Pálína.

Leikur Íslands og Ungverjaland hefst klukkan 19.30 í Laugardalshöll í kvöld og verður sýndur beint á RÚV2.

Mynd með færslu
Þorkell Gunnar Sigurbjörnsson
íþróttafréttamaður