Óvíst hversu margar undirskriftir dugi til

06.02.2016 - 12:24
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segir að það líti út fyrir að 60 þúsund undirskriftir dugi ekki til að fá stjórnvöld til að forgangsraða fyrir heilbrigðiskerfið.

Hátt í 60 þúsund manns höfðu skrifað undir undirskriftasöfnun Kára nú undir hádegi. Þar er þess krafist að Alþingi verji árlega ellefu prósentum af vergri landsframleiðslu til reksturs heilbrigðiskerfisins. Rætt var við Kára í Vikulokunum á Rás eitt í morgun.

Hann notaði tækifærið í upphafi þáttar til að biðja Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra afsökunar á því að hafa kallað hann lítinn offitusjúkan tveggja ára dreng í nýlegu viðtali í Grapevine, en þeir hafa deilt opinberlega um framlög til heilbrigðiskerfisins. „Sigmundur er að mínu mati skemmtilegur, skýr, dýnamískur og glæsilegur ungur maður og engin ástæða til að tala um hann á þennan hátt þó svo að okkur greini á um forgangsröðun í íslensku heilbrigðiskerfi.“

Fólki virðist ekki þykja heilbrigðiskerfið brýnt mál

Ætlun Kára var að safna nægjanlegum fjölda til  að hafa áhrif á stjórnvöld. „Mér finnst einhvern veginn eins og það líti út fyrir að ætla að mistakast því ég held að í kringum 60 þúsund manns nægi ekki til að hreyfa við þessum steinrunnu stjórnvöldum sem sitja nú við völd og ég fæ ekki ráðið í það öðruvísi en svo að mönnum finnist þetta ekki nógu brýnt mál til þess að bregðast við því með því að skrifa undir þetta.“

Söfnunin hafi opnað umræðu um heilbrigðiskerfið

Kári segir að leiða megi rök að því að Íslendingar hafi það heilbrigðiskerfi sem þeir sætti sig við. Hann viti ekki hversu margar undirskriftir þurfi til að hafa áhrif.  Söfnunin hafi komið af stað umræðu um heilbrigðiskerfið sem Kári vonar að hafi áhrif á Alþingi og forgangsröðun. Undirskriftasöfnuninni ljúki í lok næstu viku.  „Ég held að það væri dónaskapur við þessi 57 til 60 þúsund manns að segja að þetta hafi mistekist. En ég er hræddur um að eins og stjórnvöld hafa brugðist við þessari undirskriftasöfnun með því að senda henni fingurinn að þá er ég hræddur um að það hafi þurft meira en þetta til að fá þá til að skjálfa á beinunum sem ég held að sé forsenda þess að þeir geri eitthvað.“