Óvissa um framtíð úkraínsku stjórnarinnar

18.02.2016 - 15:11
epa05164660 Ukrainian Prime Minister Arseniy Yatsenyuk speaks to lawmakers during his annual report at Parliament in Kiev, Ukraine, 16 February 2016. Ukrainian President Petro Poroshenko asked Arseniy Yatsenyuk and General Prosecutor of Ukraine Viktor
Arsení Jatsenjúk, forsætisráðherra Úkraínu.  Mynd: EPA
Óvissa ríkir um framtíð úkraínsku ríkisstjórnarinnar. Tveir flokkar hafa sagt skilið við hana í vikunni, en flokkur þjóðernissinna kveðst reiðubúinn í samstarf.

Arsení Jatsenjúk forsætisráðherra hefur átt undir högg að sækja að undanförnu og verið sakaður um aðgerðarleysi gagnvart spillingu í stjórnkerfinu.

Föðurlandsflokkurinn, flokkur Júlíu Tímósjenkó, fyrrverandi forsætisráðherra, sagði sig úr stjórn í gær. Hún sakaði Jatsenjúk og fylgismenn hans um að vera strengjabrúður auðjöfra og hvatti þá sem þætt vænt um land og þjóð að snúa baki við stjórninni.  

Samopomich-flokkurinn tilkynnti þá að hann hygðist einnig setjast í stjórnarandstöðu. Þar með voru þeir tveir flokkar sem eftir voru, flokkar Jatsenjúks og Petró Porósjenkós forseta, komnir í minnihluta með 217 þingsæti gegn 226. 

Oleg Lyashko, leiðtogi Róttæka flokksins, flokks þjóðernissinna, tilkynnti hins vegar í dag að hann væri tilbúinn til að ganga til liðs við stjórnina, en flokkurinn hefur 21 þingsæti og heldur því stjórnin velli ef af verður. 

Lyashko sagðist vilja mynda stjórn sem gæti dregið landið upp úr því hyldýpi sem það væri sokkið í. Að sögn fréttastofunnar AFP er Lyashko mikið ólíkindatól. Hann eigi til að sýna furðulega framkomu á þingi og vera þar með herskáar yfirlýsingar. 

Jatsenjúk forsætisráðherra var sagður ætla að ræða við Lyashko í dag um hugsanlegt stjórnarsamstarf. 

Kristján Róbert Kristjánsson
Fréttastofa RÚV