Óvenjulegur svartur karfi í afla

12.02.2016 - 16:49
Mynd með færslu
Svarti karfinn sem kom í vinnslu hjá HB Granda.  Mynd: Hafró
Svartur karfi slæddist í fiskmóttöku HB Granda um miðja þessa viku. Fiskurinn var í karfaafla Ottós N.Þorlákssonar RE. Friðleifur Einarsson, skipstjóri á ísfisktogaranum Ásbirni RE segir sjómenn stundum verða vara við svartan karfa. Hann komi í aflann oftar en einu sinni á ári.

Liturinn tilkominn vegna erfðagalla

Friðleifur segir á heimasíðu HB Granda að svarti karfinn sé ekki algengur, en langt frá því að vera óþekktur. Jónbjörn Pálsson fiskifræðingur hjá Hafrannsóknastofnun segir að liturinn komi til vegna erfðagalla. Það þekkist hjá nánast öllum tegundum fiska að einn og einn einstaklingur sé öðruvísi á litinn en fjöldinn.   

Blíða á miðunum og þokkalegur afli

Blíða er á fiskimiðunum fyrir vestan og sunnan land og nánast ládauður sjór. Aðstæður eru eins og á sumardegi og karfaaflinn orðinn vel viðunandi segir Friðleifur.  Ásbjörn RE er við veiðar á Fjöllunum út af Reykjanesi. Friðleifur býst við að landa í Reykjavík á mánudag. Hann segir að ein fimm skip hafi verið að veiðum úti á Melsekk og Belgableyðu að undanförnu. Veiðisvæðin eru vestan við Eldeyjarbanka. Friðleifur segir að karfaaflinn sé alveg þokkalegur og ufsi sé farinn að slæðast með.

 

 

Mynd með færslu
Kristján Sigurjónsson
Fréttastofa RÚV