Óvenjuleg samskipti og án fordæma

27.08.2014 - 18:54
Mynd með færslu
Björg Thorarensen, lagaprófessor, segir að innanríkisráðherra og lögreglustjóri eigi aldrei að ræðast við meðan embættisfærslur á skrifstofu ráðherra séu til rannsóknar. Slík samskipti séu óvenjuleg og án fordæma.

Forsætisráðherra gekk úr forsætisráðuneytinu í innanríkisráðuneytið í dag en hann tekur nú við embættisverkum innanríkisráðherra sem snúa að málefnum lögreglu, dóms og ákæruvalds.

Tilgangurinn var að heilsa upp á starfsfólk sem nú heyrir undir forsætisráðherra. Þetta nýja dómsmálaráðuneyti, innan innanríkisráðuneytisins, er sett á fót í framhaldi af því að Hanna Birna Kristjánsdóttir baðst undan málefnum dóms og ákæruvalds.

Engar breytingar á innviðum ráðuneytisins

Björg Thorarensen, lagaprófessor segir þessa tilhögun líklega einsdæmi. „Þetta er svona flétta sem ég hef aldrei séð áður í stjórnarráðinu,“ segir Björg. Hún segir að í raun verði engar breytingar á innviðum ráðuneytisins þótt forsætisráðherra taki við hluta málaflokkanna. 

„Á meðan fer Hanna Birna áfram með skipulag og starfsmannamál og yfirstjórn ráðuneytisins. Þannig að mér finnst þetta nú ekki bjóða upp á mjög skýrar boðleiðir eða skýra stjórnsýslu að hafa þetta með þessum hætti,“ segir Björg. „Og ég sé ekki tilganginn í því að fara í þessar breytingar og þetta er náttúrulega líka ástand sem getur varað í nokkuð langan tíma, eða allt að tvö ár.“

Réttast að séu engin samskipti

Hanna Birna sagði í yfirlýsingu sinni í gær og í Kastljósi að ekkert hafi verið óeðlilegt í samskiptum þeirra Stefáns Eiríkssonar. Hún sagðist óska þess að til hefðu verið verklagsreglur um hvernig ætti að bregðast við innan ráðuneytsins í slíkri aðstöðu. Björg segir að ráðherra og lögreglustjóri eigi engin samskipti að hafa þegar þannig stendur á.

„Það er náttúrulega svo óvenjuleg aðstaða og fordæmalaus,“ segir Björg. „Það er aðstaða sem ætti raunverulega ekki að skapast og maður ætti ekki að gera ráð fyrir. Ég held að það sé réttast, bæði frá lagalegu og siðferðislegu sjónarhorni, að það séu enginn samskipti æðsta yfirmanns dómsstóla og lögreglustjóra þegar verið er að rannsaka embættisfærslur á skrifstofu ráðherra.“

Nýtur enn stuðnings Framsóknar

Fréttastofa leitaði viðbragða stjórnarþingmanna í dag við bréfi umboðsmanns. Þingflokksformaður Sjálfstæðisflokks telur eðlilegt að ráðherra fái að svara bréfi Umboðsmanns áður en einstaka þingmenn tjái sig um innihald þess.

Þingflokkur Framsóknar hittist á fundi í dag en málið var ekkert rætt samkvæmt upplýsingum fréttastofu. Þingmenn sem fréttastofa ræddi við telja Hönnu Birnu enn njóta stuðnings þingflokks Framsóknarmanna. 

 

Einnig var rætt við Björgu Thorarensen í Speglinum á Rás 1 í dag. Hlusta má á viðtal Jóns Guðna Kristjánssonar við hana hér að ofan.