Óvenju mikil kjörsókn í Íran

26.02.2016 - 19:30
epaselect epa05181521 Iranian women show their IDs as they wait in line to cast their votes in the parliamentary and Experts Assembly election outside a polling station at Ershad Mosque in Tehran, Iran, 26 February 2016. Voting began in Iran's
 Mynd: EPA
Kosið er til þings og sérfræðingaráðs í Íran í dag, í fyrsta sinn eftir að viðskiptaþvingunum gegn landinu var hætt með tímamótasamningum við þjóðarleiðtoga heims í fyrra. Kjörfundur hefur verið framlengdur tvisvar vegna óvenju mikillar kjörsóknar.

Kosið er um 290 sæti á íranska þinginu. Tíundi hluti frambjóðenda eru konur. Þá er kosið um sæti í sérfræðingaráði, sem getur ráðið vali á þjóðarleiðtoga landsins. Tæplega 55 milljónir Írana eru á kjörskrá.

Kosningarnar nú þykja í raun eins og þjóðaratkvæðagreiðsla um samning Hassans Rouhanis, forseta Írans, við þjóðarleiðtoga heimsins, þar sem Íranir sömdu um að láta af þróun kjarnavopna og á móti var víðtækum viðskiptaþvingunum gegn Íran hætt. Rouhani sækir stuðning sinn að mestu til umbótasinna sem vilja sjá lýðræðislegar framfarir í landinu, en andstæðingar hans eru mótfallnir kjarnorkusamningnum og auknum samskiptum við vestræn ríki. 

Samfélagsmiðlar spila stærra hlutverk í þessum kosningum en áður, þrátt fyrir að Íranir hafi lokað á aðgang almennings að Twitter og Facebook 2009, þegar mynd af ungri konu sem var skotin til bana við mótmæli gegn stjórnvöldum, var dreift á miðlunum. 

Mynd með færslu
Alma Ómarsdóttir
Fréttastofa RÚV