Óveður undir Hafnarfjalli

15.02.2016 - 07:50
Mynd með færslu
 Mynd: Einar Rafnsson  -  RÚV
Suðaustanstormur gengur yfir landið í dag með rigningu og slyddu víða um land. Hvassast verður við austurströndina í kvöld en þegar er farið að hvessa suðvestanlands. Það er óveður undir Hafnarfjalli og snjóþekja og skafrenningur á Sandskeiði, Hellisheiði og í Þrengslum.

Búist er við að það hvessi þegar líður á daginn. Á Kjalarnesi og undir Hafnarfjalli er reiknað með hviðum um og yfir 30-35 metrum á sekúndu fram undir klukkan þrjú í dag. 

Hríðarveður á fjallvegum

Búist er við hríðarveðri á fjallvegum í dag. Það er þæfingsfærð á Mosfellsheiði og Lyngdalsheiði en annars hálka eða snjóþekja víðast hvar á Suðurlandi. Á Vesturlandi er snjóþekja á Bröttubrekku og hálka á Holtavörðuheiði en autt að mestu um þjóðveg eitt á láglendi. Það er hálka á Snæfellsnesi og flughált fyrir nes segir á vef Vegagerðarinnar. Á Vestfjörðum er hálka eða snjóþekja en þæfingsfærð og skafrenningur á Kleifaheiði. Á Norðan- og austanverðu landinu er hálka eða hálkublettir á aðalleiðum. Það er þæfingsfærð á Þverárfjalli og Öxnadalsheiði en þar er unnið að hreinsun. 

Víða flughált í þéttbýli

Það hlánar suðvestanlands þegar líður á morguninn og búist er við bleytuhríð á Hellisheiði og Mosfellsheiði. Þegar leysir á láglendi verður víða flughált og vatnselgur á götum í þéttbýli. Það á síðan að kólna aftur síðdegis og frysta í kvöld. 

Bjarni Pétur Jónsson
Fréttastofa RÚV