Óvænt úrslit í Pepsi-deildinni

19.06.2017 - 22:25
Mynd með færslu
 Mynd: Tomasz Kolodziejski  -  RÚV
Í kvöld fóru fram fjórir leikir í Pepsi deild karla. Það var nóg af óvæntum úrslitum í leikjum kvöldsins en FH og Víkingur Reykjavík gerðu 2-2 jafntefli í Hafnafirði. Víkíngur Ólafsvík gerði sér lítið fyrir og vann Stjörnuna í Ólafsvík. Skagamenn unnu 3-1 sigur á Fjölni og Breiðablik og KR gerðu 1-1 jafntefli í Frostaskjóli.

Jafntefli í Kaplakrika

Steven Lennon kom FH yfir eftir sendingu frá Atla Guðnasyni í fyrri hálfleik. Staðan var 1-0 í hálfleik. Eftir klukkutíma leik var dæmt víti þegar Kassim Doumbia braut á Ragnari Braga. Vladimir Tufegdzic tók vítið en Gunnar Nielsen varði spyrnu hans, því miður fyrir Gunnar þá fylgdi Arnþór Ingi Kristinsson vel á eftir og jafnaði leikinn.

Nokkrum mínútum síðar fengu FH-ingar einnig víti eftir að Dofri Snorrason braut þá á Kristjáni Flóka Finnbogasyni. Steven Lennon fór á punktinn og skoraði af öruggi.

Víkingar gáfust ekki upp en Ívar Örn Jónsson jafnaði leikinn þegar tuttugu mínútur voru eftir af leiknum. FH sótti linnulaust eftir það en tókst ekki að koma boltanum í netið. 2-2 jafntefli því niðurstaðan.

Þriðja tap Stjörnunnar í röð

Stjarnan var búin að tapa tveimur leikjum í röð en þeir heimsóttu Víking Ólafsvík í kvöld. Athygli vakti að Ólafur Karl Finsen var kominn aftur í byrjunarlið Stjörnunnar en hann meiddist illa síðasta sumar.

Stjarnan byrjaði betur en það voru heimamenn sem komust yfir með marki frá Kwame Quee eftir sendingu frá Þorsteini Má Ragnarsyni. Guðmundur Steinn Hafsteinsson kom Víkíng í 2-0 í byrjun síðari hálfleiks. Aftur var það Þorsteinn Már sem átti stoðsendinguna en hann fór illa með Brynjar Gauta, miðvörð Stjörnunnar, í aðdraganda marksins.

Stjarnan fékk víti á 85. mínútu sem Hilmar Árni Halldórsson skoraði úr en nær komst Stjarnan ekki. 2-1 því lokatölur í Ólafsvík.

Skagamenn skoruðu mörkin

Leikurinn byrjaði rólega en eftir um það bil tuttugu mínútna leik fékk Stefán Teitur Þórðarson dauðafæri eftir hornspyrnu en skot hans hafnaði í slánni. Það var svo tuttugu mínútum síðar sem Birnir Snær Ingason kom Fjölni yfir en hann átti skot sem Ingvar Þór Kale réð ekki við í marki Skagamanna.

Skagamenn lögðu ekki árar í bát og jöfnuðu þegar lítið var eftir af fyrri hálfleik. Þar að verki Hafþór Pétursson en hann kom boltanum í netið eftir mikinn darraðardans í teig Fjölnis. Var þetta fyrsta mark Hafþórs í efstu deild.

Staðan var jöfn þangað til það var komið í uppbótartíma en þá skoraði Steinar Þorsteinsson fyrir Skagamenn. Þórður Þorsteinn Þórðarson gulltryggði svo sigur heimamanna með einu af marki sumarsins þegar hann skoraði með skoti fyrir aftan miðju. Keimlíkt marki David Beckhams fyrir Manchester United gegn Wimbledon fyrir 21 ári síðan.

Dramatík í Vesturbænum

Milos Milojevic hefur átt góðu gengi að fagna gegn KR undanfarið og virtist ekki ætla að verða nein breyting á því í kvöld.

KR byrjaði leikinn betur en Breiðablik óx ás megin og komst yfir með sjálfsmarki Beitis Ólafssonar á þrítugustu mínútu. Small aukaspyrna Hrvoje Tokic í stönginni og þaðan í Beiti og í netið. Stuttu síðar átti Gísli Eyjólfsson skot í stöngina fyrir Breiðablik.

KR fékk sín færi í síðari hálfleik en allt leit út fyrir að Breiðablik væri að fara með þrjú stig heim í Kópavoginn. Það var komið vel inn í uppbótartíma þegar Guðmundur Andri Tryggvason fékk stungusendingu sem leiddi til þess að Þóroddur Hjaltalín dæmdi vítaspyrnu en hann taldi Gunnleif Gunnleifsson, markmann Breiðabliks, brjóta á Guðmundi.

Óskar Örn Hauksson fór á punktinn og skoraði af öryggi. Lokatölur 1-1 en KR hefði verið í fallsæti með tapi í kvöld.

Mynd með færslu
 Mynd: Thomasz Kolodziejski  -  RÚV

 

Staðan í deildinni eftir 8 umferðir

1. Valur - 19 stig

2. Grindavík - 17 stig

3. Stjarnan - 13 stig

4. KA - 12 stig

5. FH - 11 stig

6. Víkingur R. - 11 stig

7. Breiðablik - 10 stig

8. ÍBV - 10 stig

9. KR - 8 stig

10. Fjölnir - 8 stig

11. ÍA - 7 stig

12. Víkingur Ó. - 7 stig

 

Mynd með færslu
Runólfur Trausti Þórhallsson
íþróttafréttamaður