Óvænt dauðsfall fyrrverandi yfirmanns RUSADA

15.02.2016 - 19:43
Mynd með færslu
Nikita Kamayev  Mynd: AP
Fyrrverandi yfirmaður rússneska lyfjaeftirlitsins, RUSADA, sem hætti vegna lyfjahneykslisins í rússneskum frjálsíþróttum, lést í gær, 52 ára að aldri. Tveir fyrrverandi háttsettir meðlimir eftirlitsins hafa nú látið lífið á síðustu tveimur vikum.

Alþjóðafrjálsíþróttasambandið, IAAF, hefur bannað rússneskt frjálsíþróttafólk frá allri alþjóðlegri keppni á árinu, þar með talið Ólympíuleikunum vegna stórfellds og skipulagðs lyfjamisferlis sem átti sér stað með vitund yfirvalda í Rússlandi.

Þegar lyfjahneykslið komst í hámæli í nóvember síðastliðnum hvatti Vladimir Putin Rússlandsforseti alla þá sem eiga hlut að máli til að taka ábyrgð, og í kjölfarið létu af störfum þrír háttsettir meðlimir rússneska lyfjaeftirlitsins, RUSADA. Þeirra á meðal var yfirmaðurinn, Nikita Kamayev sem lést í gær aðeins 52 ára. 

Hjartaáfall

Í yfirlýsingu frá RUSADA er dánarörsökin sögð vera hjartaáfall. Vitaly Mutko, íþróttamálaráðherra Rússa, segir dauðsfallið mjög óvænt og fyrrverandi meðlimur RUSADA sagði í viðtali við TASS fréttastofuna að hann hafi ekki vitað til þess að Kamayev hafi átt við hjartavandamál að stríða. Hann er sagður hafa fundið verk fyrir hjarta eftir að hafa verið á gönguskíðum.

Kamayev er annar fyrrverandi strarfsmaður RUSADA sem lætur lífið á innan við tveimur vikum en stjórnarmaðurinn Vyacheslav Sinev lést 3. febrúar. Dánarorsök hans er ókunn.

Eftirlitsfólk IAAF var væntanlegt

Von var á eftirlitsfólki í tveggja daga heimsókn til Moskvu frá alþjóðafrjálsíþróttasambandinu til að meta þær framfarir sem hafa orðið í lyfjaeftirliti íþróttafólks í Rússlandi. Rússar eygja von um að banninu verði aflétt og þeim heimilað að senda keppendur á Ólympíuleikana, takist þeim að sýna fram á betrumbætt vinnubrögð í lyfjaeftirlitsmálum sínum.

Mikið er fjallað um dauðsfall Kamayev í erlendum fjölmiðlum en hvergi er þess getið að nokkuð saknæmt sé á bak við það.

Mynd með færslu
Hans Steinar Bjarnason
íþróttafréttamaður