,,Óuppgerður atburður í þjóðarsál Íslendinga."

20.01.2016 - 10:21
Flóðið frumsýnt í Borgarleikhúsinu á fimmtudag. Verkið fjallar um snjóflóðið sem féll á Flateyri í október árið 1995 og afleiðingar þess.

Þann 26. október árið 1995, féll stórt snjóflóð á byggðina á Flateyri. Flóðið féll klukkan sjö mínútur yfir fjögur og voru því flestir íbúar þorpsins í fastasvefni. Tuttugu manns létu lífið, tíu karlar, sex konur og fjögur börn. Enn fleiri misstu ástvini sína og heimili. Flóð er heimildaverk sem byggt er á þessum atburðum, og frumsýnt verður í Borgarleikhúsinu á fimmtudag. Með sýningunni vill Borgarleikhúsið minnast atburðanna sem mörkuðu djúp spor í þjóðarsálina á sínum tíma. Þátttakendur í sýningunni rannsaka og rifja upp atburðina, spyrja spurninga og raða saman brotum frá þessari örlagaríku nótt í október árið 1995. Leikhúsgestir fá innsýn í sögur fólksins í þorpinu, þeirra sem lentu í flóðinu og þeirra sem utan við það, björgunarmanna og barnanna sem voru of ung til að muna atburðarrásina, en lifðu eftirmála flóðsins og ólust upp við umtalið og þögnina sem fylgdi í kjölfarið. Verkið er byggt á nýlegum viðtölum við Flateyringa og unnið í nánu samstarfi við þá. Höfundur verksins er Hrafnhildur Hagalín, en leikstjóri Björn Thors, með hlutverk í sýningunni fara þau Kristbjörg Kjeld, Halldóra Geirharðsdóttir, Hilmir Jensson og Kristín Þóra Haraldsdóttir. Þau Hrafnhildur og Björn sögðu frá verkinu í Víðsjá, Björn sagði meðal annars að um væri að ræða ,,óuppgerðan atburð í þjóðarsál Íslendinga."

Mynd með færslu
Eiríkur Guðmundsson
dagskrárgerðarmaður
Víðsjá
Þessi þáttur er í hlaðvarpi